Innlent

Tak­mörkuðum hópi býðst að fá fjórða skammtinn

Eiður Þór Árnason skrifar
Bólusetning í Laugardalshöll.
Bólusetning í Laugardalshöll. Vísir/Vilhelm

Einstaklingar sem eru með ákveðna undirliggjandi sjúkdóma eða hafa fengið vissar ónæmisbælandi meðferðir á undanförnum einum til tveimur árum geta sóst eftir því að fá fjórða skammtinn af bóluefni gegn Covid-19.

Ástæðan fyrir þessu er að þessum hópi bauðst að fá örvunarskammt fyrr en aðrir þar sem tveir skammtar eru ekki taldir vekja fullnægjandi svar, jafnvel til skamms tíma. Greint er frá þessu í tilkynningu frá sóttvarnalækni en fjórði skammturinn telst þá vera hin eiginlega örvunarbólusetning, þegar minnst þrír mánuðir eru liðnir frá þriðja skammti.

Að sögn sóttvarnalæknis þarf meðhöndlandi læknir í mörgum tilvikum að meta hvort líkamsástand eða meðferðarstaða sjúklings gefi tilefni til að hann fái fjórða skammt. Því sé við hæfi að ræða við meðhöndlandi lækni ef óljóst er hvort einstaklingur eigi að sækjast eftir skammtinum. Læknabréf til heilsugæslu og eða í höndum einstaklings geti liðkað fyrir á bólusetningarstað.

Á vef embættis landlæknis má nálgast lista yfir þá undirliggjandi sjúkdóma og ónæmisbælandi meðferðir sem um ræðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×