Katrín sat fyrir svörum um bréfaskipti sín og Kára í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í morgun. Kári birti fyrsta bréfið í desember, þar sem hann óskaði eftir því að ríkisstjórnin lýsti vanþóknun sinni á úrskurði Persónuverndar, sem komst að þeirri niðurstöðu að persónuverndarlög hefðu ekki verið uppfyllt þegar erfðagreining aðstoðaði stjórnvöld vegna Covid.
Katrín sagðist í svarbréfi vona að ákvörðun Persónuverndar myndi ekki spilla því góða samstarfi sem stjórnvöld og Erfðagreining hefðu átt. Kári svaraði og var ósáttur - sagði að án stuðnings ríkisstjórnarinnar gæti Erfðagreining ekki haldið áfram greiningu sýna og raðgreiningu. Katrín sagði svo í öðru svarbréfi sínu að úrskurður Persónuverndar hefði komið sér mjög á óvart.
„Hann kallar eftir minni skoðun“
Bæði Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur þingmanni Pírata og Sigmari Guðmundssyni þingmanni Viðreisnar þóttu svör Katrínar til marks um ákveðna stefnubreytingu af hennar hálfu - en því hafnaði hún.
„Þannig að það hefur ekkert gerst á milli bréfanna. Það sem gerist er að hann kallar eftir minni skoðun sem stjórnmálamanns á þessum úrskurði. Og þá kem ég kannski að hinu sem þingmaður spyr um, því ég get ekki fallist á að nokkur stefnuyfirlýsing hafi átt sér stað þegar nánast er verið að endurtaka efnisatriði í síðara bréfinu frá fyrra bréfinu. En það er kallað eftir minni afstöðu. Og já, úrskurðurinn kom mér á óvart. Hefur það áhrif á störf Persónuverndar? Nei,“ sagði katrín.
Með því að segja úrskurð Persónuverndar hafa komið sér á óvart hafi hún ekki verið að reyna að hafa áhrif á sjálfstæð stjórnvöld.
„Ástæða þess að ég lýsi því að þetta hafi komið mér á óvart er að rannsóknin er unnin við þessar afar sérstöku aðstæður þar sem við erum stödd í raun og veru í ákveðnu neyðarástandi í samfélaginu að afla gagna um veiru sem hefur síðan tekið í raun og veru allt samfélagið úr sambandi og skiptir gríðarlegu máli um að við værum að afla sem mestra upplýsinga um sem hraðast.“