Breska ríkisútvarpið greinir frá því að viðbragðsaðilar hafi verið kallaðir til á barinn Two More Years í Hackney Wick um klukkan 16:50 að staðartíma í gær. Þrír eru taldir alvarlega slasaðir en tíu sluppu með minni háttar áverka.
Á vettvangi þurfti slökkvilið að losa sjö manns undan braki hæðarinnar sem hafði hrunið.
BBC hefur eftir einum bargesti sem var á millihæðinni þegar gólfið hrundi að rétt áður hefði mátt heyra drunur, líkt og um jarðskjálfta væri að ræða.
„Það er ekki hægt að undirbúa sig fyrir svona lagað,“ sagði hann, og kvaðst heppinn að hafa getað komist sjálfur úr brakinu.
Annar bargestur, sem sat á neðri hæð hússins, beint undir milliloftinu, segist hafa heyrt nokkurs konar brothljóð áður en ryk tók að falla úr loftinu.
„Ég og félagi minn hlupum til hliðar og allt heila klabbið hrundi niður á nokkrum sekúndum.“