Innlent

Vill skoða að vopna lögregluna með rafbyssum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jón Gunnarsson ætlar að skoða að takmarka innflutning á sjálfvirkum vopnum.
Jón Gunnarsson ætlar að skoða að takmarka innflutning á sjálfvirkum vopnum. Vísir/Vilhelm

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra vill skoða að vopna almenna íslenska lögreglumenn með rafbyssum. Hann segir tölur yfir vélbyssur hér á landi sláandi en 252 sjálfvirk skotvopn voru flutt inn til landsins árið 2020.

Þrír karlmenn voru handteknir í Reykjavík aðfaranótt sunnudags eftir að karlmaður var skotinn í brjóstið í miðbæ Reykjavíkur fyrr um nóttina. Aðfaranótt fimmtudags var skotið á karl og konu í Grafarholti. Tveir karlmenn sæta gæsluvarðhaldi vegna árásarinnar í Grafarholti og sömuleiðis tveir þeirra sem handteknir voru um helgina vegna árásarinnar í miðbænum.

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir Íslendinga búa í mjög öruggu samfélagi, í það minnsta í samanburði við nágrannalöndin - þau sem við berum okkur gjarnan saman við. Hann sagði í Bítinu á Bylgjunni í morgun að full ástæða væri til að hafa áhyggjur af skipulagðri glæpastarfsemi hér á landi.

Vill frekari heimildir

„Við höfum ekki tekið þau skilaboð nógu alvarlega,“ segir Jón og vísar til skýrslna ríkislögreglustjóra um glæpahópa sem séu að festa rætur hér á landi. Þeir séu fleiri en einn og fleiri en tveir. Hann telur brýnt að auka eftirlitsheimildir lögreglu og gera sambærilegar þeim í nágrannalöndunum.

„Það hefur verið óskað eftir víðtækari heimildum til að geta fylgst með og rannsakað aðila sem liggja ekki undir grun fyrir ákveðin afbrot en eru grunsamlegir og lögregla telur tilefni til að fylgjast með,“ segir Jón.

Fjallað var um áhyggjur lögreglu af skipulagðri glæpastarfsemi í Kompás í fyrra.

Hann nefnir sem dæmi að lögregluyfirvöld í Evrópu láti vita af komu glæpamanna í heimalandinu, sem fylgst sér með þar. Svo komi þeir til Íslands en lögregla hafi ekki leyfi til að fylgjast með ferðum þeirra hér á landi.

Skoðar löggjöf um skipulagða glæpastarfsemi

„Margir hafa snúist til varnar, talað um lögregluríki, en þetta snýst um að lögregla geti unnið við sömu aðstæður.“

Unnið sé að löggjöf um skipulagða glæpastarfsemi og segist Jón vonast eftir málefnalegri umræðu um málið.

„Þetta er þróun þar sem við verðum að spyrna við fótum. Öryggi borgaranna skiptir öllu máli. Þurfum líka að huga að öryggi okkar löggæslufólks.“

Óljóst er hvort málin tvö tengist skipulagðri brotastarfsemi. Í fyrra málinu skaut karlmaður, með langan sakaferil þrátt fyrir ungan aldur, fyrrverandi kærustu sína og núverandi kærasta hennar. Litlar upplýsingar hafa komið fram um síðara málið.

Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá greiningardeild ríkislögreglustjóra, sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að skotárásirnar væru angi af skipulagðri brotastarfsemi. Hans stærsta áhyggjuefni sé að fjölga þurfi verulega í liði lögreglu hér á landi. Einnig hve mjög útköllum sem varða vopnaburð hefur fjölgað hjá lögreglu undanfarin ár.

Runólfur og Jón eru báðir þeirrar skoðunar að ekki sé tilefni til að vopna almenna lögreglu.

„Það er mjög stutt yfirleitt í vopn hjá lögreglu. Það eru vopn í lögreglubílum. Þarf sérstaka heimild ef á að beita því. Svo erum við með sérsveitina sem er mjög öflug,“ segir Jón en sérsveitin er vopnuð byssum. Hann vill skoða að vopna almenna lögreglumenn með rafbyssum og horfir til Noregs í þeim efnum.

Norðmenn horfa til rafbyssa

„Í Svíþjóð og Danmörku, þar eru lögreglumenn vopnaðir skammbyssum og geta beitt rafbyssum líka eftir því sem ég best veit. Reynsla lögreglunnar er mjög góð,“ segir Jón sem horfir til Noregs. Þar hafi nýlega komið út skýrsla varðandi það að heimila not á rafbyssum. Hún sé mjög jákvæð og þetta geti verið góð ráðstöfun. Norðmenn séu í þeirri vegferð að heimila þetta og Íslendingar hafi gjarnan horft til Noregs í lögreglumálum.

180 vélbyssur eru í einkaeigu á Íslandi og eru lang flestar þeirra virkar. Þrettán sinnum fleiri sjálfvirk skotvopn voru flutt inn á árinu 2020 en 2019. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2 síðastliðið sumar.

„Mér brá að heyra þessar tölur um hríðskotabyssur,“ segir Jón. Hann segist ætla að skoða byssulöggjöfina í framhaldi af þessu.

Hefur lítinn skilning á hundruð vélbyssa

„Ég ætla að setjast sérstaklega niður með mínu fólki og meta hvort tilefni sé til að takmarka innflutning á þessum vopnum,“ segir Jón.

„Ég hef voða lítinn skilning á því að hér þurfi að vera mörg hundruð vélbyssur til í landinu.“

Hann viti ekki hvort hægt sé að innkalla vopnin en kallar eftir skýringum.

„Þessar tölur eru mjög ógnvekjandi. Ég sé ekki tilefni til þess. Ég hef mjög mikinn skilning á því að menn vilji eiga byssur til að stunda fuglaveiðar, hreindýraveiðar og annað slíkt. En svona vopn, ég skil ekki tilganginn í því. Ég hef ekki orðið var við þann mikla áhuga á byssusöfnun að það sé tilefni til.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×