Aron Dagur er 25 ára og uppalinn í Gróttu, en fór þaðan til Stjörnunnar árið 2017. Hann fór til Svíþjóðar í janúar 2019 þegar hann gekk til liðs við Alingsås, en færði sig yfir til Guif í maí á síðasta ári.
Hann er nú á leið yfir landamærin þar sem hann mun leika með norska stórliðinu Elverum, en frá þessu var greint á samfélagsmiðlum liðsins í dag.
Hjá Elverum mun Aron Dagur hitta fyrir annan Íslending, en Orri Freyr Þorkelsson leikur með liðinu. Elverum trónir á toppi norsku deildarinnar með níu stiga forskot eftir 19 leiki og eru langt komnir með að tryggja sér sigur í deildinni. Þá er Elverum einnig í B-riðli Meistaradeildar Evrópu þar sem liðið situr í fimmta sæti með átta stig eftir tíu leiki, en þriðja til sjötta sæti gefur keppnisrétt í átta liða úrslitum.
Elverum beið fram á seinustu stundu með að ganga frá samningum við leikstjórnandann, en félagsskiptaglugginn í handboltanum lokar í kvöld.
På deadline day sikrer vi oss Aron Dagur Pálsson ut sesongen! Velkommen til Elverum, Aron!🤩 pic.twitter.com/AJ2WTMCNQc
— ElverumHandball (@ElverumHandball) February 15, 2022