Að því er kemur fram í tilkynningu frá spítalanum eru nú 342 starfsmenn í einangrun. Síðasta sólarhring greindust tæplega 50 starfsmenn en frá 15. febrúar til gærdagsins hafa 1.463 starfsmenn greinst smitaðir.
„Stærsta áskorun spítalans er að manna hvern sólarhring og nú horfir til algerra vandræða um helgina á mörgum deildum,“ segir í tilkynningunni.
Fréttablaðið greinir frá því í dag að stjórnendur Landspítala hafi ákveðið að framlengja álagsgreiðslur til starfsmanna sem runnu út síðastliðinn þriðjudag.
Þá er enn mikill fjöldi sjúklinga með Covid inni á spítalanum en smitaðir einstaklingar eru á ellefu deildum spítalans. Flestir eru á Vífilsstöðum, eða þrettán sjúklingar, og næst flestir á smitsjúkdómadeild.
44 eru nú inniliggjandi með Covid-19 á Landspítala, en þar af er einn laus úr einangrun. Síðasta sólarhring bættust sjö sjúklingar í hópinn en ellefu voru útskrifaðir eða einangrun aflétt.