„Staðan á spítalanum er bara þung og erfið með tilliti til mönnunar. Það eru svo margir veikir, yfir 350 starfsmenn eru veikir vegna Covid og það kemur niður á mönnuninni,“ segir Gunnar Ágúst Beinteinsson, framkvæmdastjóri mannauðs á Landspítala, í samtali við fréttastofu.
Hann tekur þannig undir áhyggjur farsóttarnefndar og viðbragðsstjórnar en það horfir til algerra vandræða um helgina á mörgum deildum. Stjórnendur Landspítala gripu til þess ráðs í dag að framlengja álagsgreiðslur til starfsmanna, sem runnu út fyrr í vikunni.
„Þær voru frá 15. janúar til 15. febrúar og við ætluðum að breyta þeim, en síðan er bara staðan þannig að við erum bara að framlengja um einhvern tíma til að reyna að hjálpa okkur við þessa mönnun sem er erfið núna,“ segir Gunnar.
Ekki liggur fyrir hversu lengi greiðslurnar verða framlengdar en verið er að meta stöðuna eftir því hvernig faraldurinn og veikindi þróast. „Við erum núna búin að framlengja þetta í einhvern tíma og síðan þurfum við bara að meta þetta aftur,“ segir Gunnar.
Hátt í tíu prósent frá vinnu
Aðspurður um hvort spítalinn sé að grípa til annarra sérstakra aðgerða í ljósi stöðunnar segir Gunnar það takmarkað hvað þau geta gert.
„Þetta er bara fólkið sem við höfum, við höfum ekki fleiri til að leita til og það eru allar stofnanir og bara allir í svipuðu ástandi,“ segir Gunnar.
Hann segir spítalann hafa rætt það síðastliðinn janúar að umbuna starfsfólki fyrir þeirra vinnu til að reyna að manna og fá fólk inn á aukavaktir, þar sem Covid sjúklingar þurfa meiri umönnun.
„Það eru bara miklu fleiri starfsmenn veikir en við gerðum ráð fyrir þegar við vorum að hugsa þetta þá,“ segir hann.
Hann vísar til þess að hátt í tíu prósent starfsmanna séu nú með Covid en í heildina eru 342 starfsmenn í einangrun. Þegar mest á lét voru rúmlega 360 starfsmenn í einangrun en Gunnar segir ómögulegt að segja hvort toppnum hafi verið náð.
„Við erum að vona að við förum ekki mikið hærra,“ segir Gunnar en vísar til þess að fjöldi þeirra sem eru að greinast í samfélaginu sé í hæstu hæðum. „Ég hugsa að næstu tvær vikur verði mjög erfiðar.“