Íslenski boltinn

„Þarf líka góðan leið­toga sem talar mikið og er til­búinn að stýra og stjórna“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnar Gunnlaugsson segir Víking hafa verið í leit að leiðtoga sem og góðum fótboltamanni.
Arnar Gunnlaugsson segir Víking hafa verið í leit að leiðtoga sem og góðum fótboltamanni. Vísir/Hulda Margrét

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara Víkinga segir félagið ekki aðeins hafa verið að leita að góðum fótboltamanna heldur einnig leiðtoga en félagið samdi við hinn sænska Oliver Ekroth í gærdag.

„Hann var fyrirliði í sínu liði í mjög sterkri deild. Kann fótbolta. Eftir að Kári (Árnason) og Sölvi (Geir Ottesen) hættu er ekki nóg að finna góðan fótboltamann heldur þarf líka góðan leiðtoga, sem talar mikið og er tilbúinn að stýra og stjórna,“ sagði Arnar um nýjasta leikmann Víkinga.

„Hann virkar líka eins og hann sé hungraður að koma og hjálpa okkur að verja báða titlana og gera vel í Evrópu. Það er draumur margra að vera í Evrópukeppni og hann hefur ekki gert það hingað til, ég finn að hann er mjög hungraður í að gera vel á Íslandi.“

„Það hjálpar gríðarlega, hefur mikið aðdráttarafl. Það er ekkert sjálfsagður hlutur að vera í Evrópukeppni og fyrir marga er þetta draumur. Hann er nú 30 ára og búinn að spila í öllum deildum í Svíþjóð og náði loks að spila í efstu deild í fyrra og gerði mjög vel. Nú er næsta skref að gera vel í Evrópu og líka bara hjálpa okkur. Ég held að verkefnið sé mjög spennandi fyrir hann,“ sagði Arnar um mikilvægi þess að vera í Evrópukeppni.

„Hvað okkur varðar þá leituðum við mjög lengi. Við gerðum tilboð í einhverja og hann var á listanum okkar í langan tíma, fengum góð meðmæli og reyndum að gera okkar vinnu eins vel og hægt væri. Þetta er stórt mál, að taka útlendinga heim. Heppnast stundum og stundum ekki en mér finnst við hafa unnið grunnvinnuna,“ sagði Arnar að endingu en viðtalið við Arnar í heild sinni má sjá í spilaranum hér að neðan.

Klippa: Arnar sagði Víkingsliðið hafa verið í leit að leiðtoga

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×