Fótbolti

Cecilía Rán kom inn af bekknum í sínum fyrsta leik fyrir Bayern

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Cecilía Rán Rúnarsdóttir hér í leik með Örebro en hún er nú á láni hjá stórliði Bayern.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir hér í leik með Örebro en hún er nú á láni hjá stórliði Bayern. KIF Örebro/Rasmus Ohlsson

Landsliðsmarkvörðurinn Cecilía Rán Rúnarsdóttir lék í kvöld sinn fyrsta leik fyrir þýska stórliðið Bayern München. Hún kom inn af bekknum er liðið vann 9-1 sigur á Jena W. í bikarkeppninni þar í landi.

Alls voru þrjár íslenskar landsliðskonur á bekk Bayern í kvöld en ásamt Cecilíu Rán voru þær Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Glódís Perla Viggósdóttir á bekknum. 

Það verður seint sagt að leikur kvöldsins hafi verið stál í stál en gestirnir frá Bæjaralandi komust yfir strax á tíundu mínútu leiksins og var staðan orðin 4-0 þegar rétt rúmar 40 mínútur voru liðnar.

Heimakonur minnkuðu muninn fyrir lok fyrri hálfleiks en Bæjarar áttu lokaorðið og leiddu 5-1 í hálfleik. Karólína Lea kom inn af varamannabekk Bayern í hálfleik og þegar tæpar 20 mínútur lifðiu leiks kom önnur skipting.

Staðan var þá 6-1 þegar Cecilía Rán leysti Janinu Leitzig af í marki í liðsins á 71. mínútu leiksins. Eftir það bætti Bayern við þremur mörkum og vann einkar sannfærandi 9-1 sigur. Liðið því komið áfram í þýsku bikarkeppninni.

Glódís Perla sat allan leikinn á varamannabekk Bayern.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×