Erlent

Beina sjónum sínum að íbúðabyggð til að brjóta Úkraínumenn niður

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Liðsmaður úkraínska varnarliðsins stendur vörð austan við Kænugarð. Þangað sækja rússneskar hersveitir en hefur gengið brösuglega.
Liðsmaður úkraínska varnarliðsins stendur vörð austan við Kænugarð. Þangað sækja rússneskar hersveitir en hefur gengið brösuglega. epa/Roman Pilipey

Kænugarður virðist vera aðalskotmark rússneskra hersveita að sögn yfirmanna úkraínska hersins en harðar árásir hafa einnig verið gerðar á Kharkív og Mykolaív síðasta sólahring. 

Úkraínski herinn segir Rússa vinna að því að mynda „landgang“ frá Krím og inn í Úkraínu og að herþotur hafi gert árás á Kænugar og Zhytomyr sem komu frá flugvöllum í Hvíta Rússlandi.

Í nýjustu stöðuskýrslu Úkraínumanna segir að varnaraðgerðir séu yfirstandandi í austurhluta Donetsk en höfuðáhersla sé lögð á að standa vörð um Maríupól. Þá er barist um borgina Chernihiv en Úkraínuher segist hafa tekist að hindra sókn Rússa frá Balaklia til Dnipropetrovsk.

Herinn segist hafa mátt þola mikið mannfall og eyðileggingu ýmissa hergagna en að Rússar hafi sömuleiðis tapað 88 flugvélum og þyrlum.

Í skýrslunni segir að þeir rússnesku hermenn sem hafi verið fangaðir hafi fengið aðhlynningu en ljóst sé að mórallinn sé afar lélegur meðal þeirra, meðal annars vegna harðrar mótspyrnu úkraínsku þjóðarinnar.

Þetta rímar nokkuð vel við daglega skýrslu breska varnarmálaráðuneytisins, þar sem segir að styrkur andspyrnu Úkraínumanna hafi komið Rússum verulega á óvart. Þeir hafi brugðist við með því að beina árásum sínum gegn íbúðahverfum til að brjóta niður baráttuanda þjóðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×