Innlent

Toppi far­aldurs mögu­lega náð og Þór­ólfur á leið í tíma­móta­frí

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir vísbendingar um að toppnum sé náð í kórónuveirufaraldrinum. 
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir vísbendingar um að toppnum sé náð í kórónuveirufaraldrinum.  Vísir/Vilhelm

Sóttvarnalæknir telur að toppnum á kórónuveirufaraldrinum sé mögulega náð og að faraldurinn sé hugsanlega á leið niður.

Í gær greindust 1.910 manns með kórónuveiruna innanlands. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir fjölda þeirra sem greinst hafa með veiruna síðustu daga nokkuð stöðugan

„Það er verið að taka mikið af sýnum. Þannig að það hefur ekki fækkað neitt mikið. Þannig að það vekur vonir um það að kannski sé þetta eitthvað á niðurleið.“

Hann segir stöðuna í heilbrigðiskerfinu þokkalega.

„Staðan á spítölunum er svipuð. Það eru svona á Landspítalann eru að leggjast inn svona frá fimm og upp í tíu manns á dag og álíka fjöldi að útskrifast. Þannig að staðan er bara svipuð þar. Það er líka svipuð staða á Akureyri. Tíu manns inniliggjandi þar í heildina. Þannig að áfram eru náttúrulega veikindi hjá starfsfólki en það er kannski svona heldur léttara yfir því.“

Tæplega 141 þúsund manns hafa nú fengið staðfest að þeir hafi smitast af veirunni með sýnatöku.

„Við höfum svona áætlað að kannski tvöfalt fleiri hafi í raun og veru smitast. Margir hafi ekki greinst þá kannski og ef það reynist rétt þá erum við komin með yfir sjötíu prósent landsmanna sem að hafa smitast en þetta eru svona óvissuþættir í þessu sem er erfitt að fullyrða og við vitum heldur ekki hvort að hjarðónæmi náist við áttatíu prósent sem við höfum verið að miða við. Þannig að það er svona óvissa en ég held að þetta gæti kannski staðist og kannski erum við heldur að fara niður á við svona núna og næstu dagana.“

Það er kannski til marks um að staðan sé að batna að Þórólfur er á leið til útlanda í frí í fyrsta sinn frá því áður en faraldurinn hófst.

„Ég veit ekki hvort að það séu einhver tímamót í faraldrinum. Það eru kannski tímamót hjá mér sjálfum bara að fara kannski í smáfrí. Það er held ég ágætt á þessum tímapunkti þar sem þetta er svona aðeins að róast.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×