Handbolti

Frammistaðan á EM sannfærði þjálfara Ribe-Esbjerg um að fá Elvar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elvar Ásgeirsson í búningi Ribe-Esbjerg.
Elvar Ásgeirsson í búningi Ribe-Esbjerg. ribe-esbjerg

Elvar Ásgeirsson, landsliðsmaður í handbolta, hefur skrifað undir tveggja ára samning við danska úrvalsdeildarliðið Ribe-Esbjerg. Hann kemur til liðsins frá Nancy í Frakklandi eftir þetta tímabil.

Andres Thomsen, þjálfari Ribe-Esbjerg, segist lengi hafa verið með Elvar í sigtinu og ákvað að láta til skarar skríða eftir óvænta, en stórgóða, innkomu hans á EM í janúar.

„Eftir frábæra frammistöðu á EM hlakka ég til samstarfsins. Með Elvari fáum við hæfileikaríkan mann sem er góður á báðum endum vallarins. Fjölhæfni hans mun nýtast liðinu vel,“ sagði Thomsen um Elvar.

Mosfellingurinn gekk í raðir Nancy frá Stuttgart í Þýskalandi í febrúar á síðasta ári. Hann hefur leikið sem atvinnumaður erlendis síðan 2019.

Elvar er ekki eini landsliðsmaðurinn sem fer til Ribe-Esbjerg í sumar því markvörðurinn Ágúst Elí Björgvinsson hefur einnig samið við liðið. Hann þarf ekki fara langt en hann leikur með Kolding sem er einnig á Jótlandi.

Elvar, sem er 27 ára skytta eða miðjumaður, kom óvænt inn í íslenska landsliðið á EM eftir að nokkrir lykilmenn heltust úr lestinni vegna kórónuveirusmita. Hann lék fimm leiki á mótinu en það voru jafnframt hans fyrstu A-landsleikir á ferlinum.

Ribe-Esbjerg er í 8. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með tuttugu stig eftir tuttugu umferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×