Erlent

Við­ræður Rússa og Úkraínu­manna halda á­fram á mánu­dag

Smári Jökull Jónsson skrifar
Hér má sjá rússneska hermenn, sem fangaðir voru af Úkraínumönnum, svara spurningum á blaðamannafundi Interfax. Friðarviðræður þjóðanna halda áfram á mánudag.
Hér má sjá rússneska hermenn, sem fangaðir voru af Úkraínumönnum, svara spurningum á blaðamannafundi Interfax. Friðarviðræður þjóðanna halda áfram á mánudag. Vísir/AP

Þriðji fundur Rússa og Úkraínumanna um mögulegan frið á svæðinu verður haldinn á mánudaginn. Vólódómír Selenskí, forseti Úkraínu, biðlaði eftir frekari aðstoð Bandaríkjanna á fundi með öldungadeildaþingmönnum í dag.

Selenskí bauð öllum hundrað öldungadeildaþingmönnum Bandaríkjanna á Zoom-fund í dag þar sem hann óskaði eftir frekari aðstoð við að verja land sitt gegn innrás Rússa. Meðal þess sem hann óskaði eftir voru fleiri flugvélar og drónar.

Leiðtogar þingflokka Demókrata og Repúblikana eru að vinna í tíu milljarða dollara fjárhagsaðstoð til Úkraínu. Einnig er möguleiki á því að stríðsflugvélar verði sendar til átakanna í gegnum önnur lönd.

Þingmaður Demókrata, Chris Van Hollen, skrifaði á Twitter að Nato ætti umsvifalaust að senda stríðsvélar frá Póllandi, Rúmeníu og Slóvakíu til Úkraínu.

Vesturlönd hafa hingað til ekki tekið undir óskir Selenskí forseta um að koma á flugbanni yfir Úkraínu enda hafa Rússar sagt að slík ákvörðun væri stríðsyfirlýsing á hendur Rússa.

„Ég ásamt öðrum staðfestum stuðning Bandaríkjanna við Úkraínu og ræddum möguleikann á frekari aðstoð til félaga okkar í baráttu sinni fyrir frelsi. Augu allra eru á Úkraínu á meðan þeir verja lýðræðið,“ skrifaði demókratinn Jeanne Shaheen.

Þá tilkynnti David Arakhamiya, samningamaður Úkraínumanna, að frekari viðræður um frið myndu halda áfram á mánudag en þetta kemur fram í frétt Reuters. Á fimmtudag var samþykkt að opna útgönguleiðir úr borgum í Úkraínu svo almenningur gæti yfirgefið bardagasvæði. Fólksflutningarnir hafa þó ekki gengið eins vel og vonast hafði verið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×