Innherji

Forstjóri Síldarvinnslunnar kallar eftir samkomulagi við ESB um lækkun tolla

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar. 
Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar.  Aðsend mynd

Gunnþór B. Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, kallar eftir því að stjórnvöld nái samkomulagi við Evrópusambandið um tollaívilnanir svo að liðka megi fyrir sölu á uppsjávarafurðum til ríkja innan sambandsins. Þetta kom fram í máli Gunnþórs á uppgjörsfundi Síldarvinnslunnar í gær.

„Ef við eigum að horfa á stöðuna markaðslega fyrir uppsjávarfisk núna, út af þessari ólgu í Austur-Evrópu, þá væri gríðarlega mikilvægt ef við næðum einhvers konar samkomulagi varðandi tollamál og tollaívilnanir inn á Evrópusambandið,“ sagði Gunnþór.

„Það er mikil neysla á makríl og síld á þeim mörkuðum en við búum við tolla sem skerða okkar samkeppnishæfni þar,“ bætti hann við. Makríll og síld eru í hæsta tollflokki sjávarafurða og bera því meira en 10 prósenta toll.

Útflutningshagsmunir Íslands í Úkraínu hafa aukist verulega á síðustu árum. Eftir að Rússland lagði innflutningsbann á matvæli frá Íslandi árið 2014 færðist útflutningur íslenskra sjávarafurða að miklu leyti til Hvíta-Rússlands og Úkraínu. Vöruútflutningur til Hvíta-Rússlands – nær einungis sjávarafurðir – fjórfaldaðist þannig úr 1 milljarði árið 2015 upp í rúmlega 4 milljarða á síðasta ári.

Hvað Úkraínu varðar jukust útflutningsverðmæti úr 2,3 milljörðum upp í 6,6 milljarða á sama tímabili. Og ef tekið er með í reikninginn að hátt í helmingur sjávarafurða sem eru seldar til Litáen sé síðan áframseldur til Úkraínu má áætla að útflutningur þangað hafi í raun verið nokkrum milljörðum meiri. Mikil óvissa er um þessa útflutningshagsmuni eftir innrás Rússa í Úkraínu.

Rekja má um 10 til 12 prósent af veltu Síldarvinnslunnar, sem nam ríflega 31 milljarði króna í fyrra samkvæmt nýbirtu ársuppgjöri, til sölu afurða til Úkraínu og útgerðin hafði áður tilkynnt að útistandandi viðskiptakröfur í Úkraínu væru samtals 1,1 milljarður króna.

„Makríll er vara sem við getum selt, að við teljum, um allan heim og sama má segja um síldina,“ sagði Gunnþór. Um 57 prósent af sölu Síldarvinnslunnar til Úkraínu í fyrra var sala á makríl en restin skiptist nær jafnt á milli síldar og loðnu.

„Til lengri tíma litið trúi ég því að allur sá fjöldi sem býr í þessum löndum muni halda áfram að borða uppsjávarfisk þegar þessum hörmungum linnir. Þessir markaðir eru ekki að hverfa en við munum finna aðra markaði,“ sagði Gunnþór. „Ég er ekki að sjá að þetta ógni stöðugleika í kringum rekstur Síldarvinnslunnar til lengri tíma litið.“

Olíuverð hefur hækkað verulega frá áramótum – hækkunin nam 40 prósentum fyrir fáeinum dögum en hefur hjaðnað í um 20 prósent – og hefur sú þróun töluverð áhrif á rekstur Síldarvinnslunnar.

„Við erum að verða fyrir mjög neikvæðum áhrifum vegna olíuhækkana og það er engin launung á því að 10 króna hækkun á olíulítranum þýðir 180 til 200 milljónir í aukinn kostnað,“ sagði Gunnþór.

Hagnaður Síldarvinnslunnar á árinu 2021 nam samtals 87,4 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði rúmlega 11 milljarða króna miðað við meðalgengi síðasta árs, og jókst hann um 120 prósent á milli ára. Þá jukust tekjur félagsins um liðlega þriðjung og voru 237 milljónir dala.

Stjórn Síldarvinnslunnar hefur lagt til að 3,4 milljarðar verði greiddir út í arð til hluthafa vegna afkomu síðasta árs sem er í samræmi við arðgreiðslustefnu félagsins.

Hlutabréf Síldarvinnslunnar hafa lækkað um 11 prósent í verði frá áramótum en til samanburðar hefur úrvalsvísitalan lækkað um rúmlega 12 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×