Skoðun

Við höfum þegar fram­kvæmt það sem aðrir lofa að gera

Ó. Ingi Tómasson skrifar

Málefnafátækt Samfylkingarinnar í Hafnarfirði kemur ágætlega fram í innihaldslausum fullyrðingum um að ekkert sé að gerast í uppbyggingu í bænum. Talað er um lítið sé að frétta í skipulagi nýrra hverfa, engar lóðir hafi verið og séu til úthlutunar og það sem meira er að Samfylkingin lofar að fara í úthlutanir á lóðum m.a. á slippsvæðinu, Óseyrarhverfi og Hraunum Vestur.

Uppbygging þróunarreita

Á þessu kjörtímabili var m.a. samþykkt Rammaskipulag fyrir Flensborgarhöfn og Óseyrarsvæði, unnið er að deiliskipulagi fyrir Óseyrarsvæði þar sem gert er ráð fyrir um 700 íbúðum ásamt verslun og þjónustu. Á Flensborgarsvæðið kemur eitt stykki Tækniskóli, búið er að breyta aðalskipulagi svæðisins vegna skólans. Á Hraunum Vestur var einnig samþykkt rammaskipulag fyrir allt hverfið þar sem gert er ráð fyrir 2800 íbúðum og fyrir liggur samþykkt deiliskipulag fyrir um 490 íbúðir ásamt verslun og þjónustu. Fulltrúar Samfylkingunnar greiddu atkvæði gegn þessari uppbyggingu, sama og þeir gerðu við skipulag Hafró hússins við Fornubúðir. Það sem Fulltrúar Samfylkingarinnar lofa að gera er að úthluta lóðum á þessum svæðum, þ.e. Óseyrarsvæði, slippsvæði og Hraunum Vestur. Eins og allir vita er ýmis starfsemi á þessum svæðum, hús eru í notkun og í gildi lóðaleigusamningar. Samfylking virðist því ætla í eignarupptöku á þessum svæðum til að geta úthlutað lóðunum. Það sem Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur gert er að vinna með lóðarhöfum um lausn mála sem uppbygging á þessum svæðum kallar á, afrakstur þeirrar vinnu er að stutt er í uppbyggingu á þessum svæðum og verður t.d. byrjað að byggja á svokölluðum Trefjareit á Hraunum Vestur í vor. Auk þessa er uppbygging hafin á nokkrum þróunarreitum í bænum.

Önnur uppbygging

Það sem hefur farið fram hjá fulltrúum Samfylkingarinnar er kröftug uppbygging í Skarðshlíð, úthlutun á síðasta ári í Hamranesi, þar voru úthlutaðar lóðir undir 1700 íbúðir í fjölbýli og uppbygging þar á fullum krafti, útboð á lóð á Ásvöllum undir 110 íbúðir, deiliskipulag samþykkt undir 200 íbúðir í Selhrauni Suður og samþykkt deiliskipulag fyrir Ásland 4 fyrir 550 íbúðir í sérbýli, þar mun úthlutun fara fram í vor. Samtals liggur fyrir skipulag fyrir 7000 íbúðir sem rúma 17000 íbúa. Um þessa uppbyggingu má lesa nánar á: https://www.hafnarfjordur.is/stjornsysla/frettir/hafnarfjordur-staekkar. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur þegar framkvæmt það sem Samfylkingin lofar að gera.

Höfundur er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks og formaður skipulags- og byggingarráðs.




Skoðun

Sjá meira


×