Fótbolti

Fullkomin frumraun Sveindísar

Sindri Sverrisson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir byrjar af krafti hjá þýska stórliðinu Wolfsburg.
Sveindís Jane Jónsdóttir byrjar af krafti hjá þýska stórliðinu Wolfsburg. INSTAGRAM/@SVEINDISSS

Sveindís Jane Jónsdóttir fékk viðurkenningu fyrir frammistöðu sína í fyrsta byrjunarliðsleik sínum með Wolfsburg þegar hún var valin í lið umferðarinnar í þýsku 1. deildinni í fótbolta.

Sveindís er hratt og vel að vinna sér sess í stórliði Wolfsburg eftir að hafa komið til félagsins í vetur að lokinni lánsdvöl hjá Kristianstad í Svíþjóð.

Hún hafði komið inn á sem varamaður í þremur leikjum þegar hún fékk sæti í byrjunarliði gegn Köln um helgina og skoraði tvö mörk í 5-1 útisigri gegn Köln.

Ásamt Sveindísi er liðsfélagi hennar í Wolfsburg, þýska landsliðskonan Tabea Wassmuth, einnig í liði umferðarinnar en hún skoraði sömuleiðis tvö mörk í sigrinum gegn Köln.

Wolfsburg hefur unnið fjóra deildarleiki í röð og aðeins tapað einum leik á tímabilinu í þýsku deildinni en er samt tveimur stigum á eftir toppliði Bayern München, með þær Glódísi Perlu Viggósdóttur, Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur og Cecilíu Rán Rúnarsdóttur innanborðs.

Wolfsburg á þó leik til góða og getur komist á toppinn með sigri gegn Sand á útivelli á morgun.

Það styttist svo í leikina við Arsenal í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu en fyrri leikur liðanna er í London á miðvikudagskvöldið í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×