Fótbolti

Lærin stöðvuðu Sveindísi eftir tvennuna en Wolfsburg á toppinn

Sindri Sverrisson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir lék sinn fyrsta leik með Wolfsburg í lok janúar.
Sveindís Jane Jónsdóttir lék sinn fyrsta leik með Wolfsburg í lok janúar. vfl-wolfsburg.de

Sveindís Jane Jónsdóttir gat ekki fylgt eftir tvennu sinni um helgina fyrir Wolfsburg í dag, vegna stífleika í lærvöðva, þegar liðið kom sér á topp þýsku 1. deildarinnar í fótbolta.

Sveindís var í fyrsta sinn í byrjunarliði Wolfsburg um helgina og skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik, í 5-1 sigri gegn Köln. Samkvæmt heimasíðu Wolfsburg varð hún hins vegar að sleppa leiknum við Sand í dag en markmiðið er að hún snúi aftur á völlinn eins fljótt og mögulegt er.

Án Sveindísar lenti Wolfsburg undir gegn Sand í dag en Hollendingurinn Dominique Janssen og Svíinn Rebecka Blomqvist tryggðu Wolfsburg 2-1 sigur.

Þar með komst Wolfsburg stigi upp fyrir Bayern München í einvígi liðanna um þýska meistaratitilinn. Liðin hafa nú leikið 16 leiki hvort og er Wolfsburg með 41 stig.

Bayern, með Íslendingatríóið Glódísi Perlu Viggósdóttur, Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur og Cecilíu Rán Rúnarsdóttur innanborðs, getur komist aftur á toppinn á föstudaginn þegar liðið mætir Frankfurt, liðinu í 3. sæti deildarinnar. Wolfsburg á svo sömuleiðis erfiðan leik við Hoffenheim á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×