Handbolti

Guðmundur stýrir strákunum okkar áfram

Sindri Sverrisson skrifar
Guðmundur Guðmundsson hefur samþykkt tilboð HSÍ og verður áfram landsliðsþjálfari Íslands.
Guðmundur Guðmundsson hefur samþykkt tilboð HSÍ og verður áfram landsliðsþjálfari Íslands. EPA/Tamas Kovacs

Eftir nokkuð langar samningaviðræður er nú orðið ljóst að Guðmundur Guðmundsson verður áfram landsliðsþjálfari karla í handbolta.

Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi í dag. Nýr samningur Guðmundar gildir til tveggja ára, fram yfir Ólympíuleikana í París 2024.

Guðmundur mun því stýra landsliðinu samhliða því að þjálfa danska úrvalsdeildarliðið Fredericia sem hann tekur við í sumar.

Gunnar Magnússon og Ágúst Jóhannsson munu einnig halda áfram sem aðstoðarlandsliðsþjálfarar.

Næsta verkefni Guðmundar og landsliðsins, sem er í æfingabúðum hér á landi þessa dagana, eru umspilsleikir í næsta mánuði, um sæti á HM, við Austurríki eða Eistland. Lokakeppni HM fer fram í Svíþjóð og Póllandi í janúar á næsta ári.

Náði markmiðinu um að snúa aftur í hóp átta bestu

Guðmundur tók við landsliðinu í þriðja sinn á ferlinum þegar hann var ráðinn í febrúar 2018 og tók við af Geir Sveinssyni. Guðmundur skrifaði þá undir samning til þriggja ára, sem árið 2020 var framlengdur til sumarsins 2022, og setti sér og íslenska liðinu markmið um að það kæmist aftur í hóp átta bestu þjóða í heimi. 

Liðið endaði svo í 6. sæti á EM í janúar, þar sem það var hársbreidd frá því að komast í undanúrslit.

Guðmundur hefur áður stýrt íslenska landsliðinu á árunum 2001-2004 og 2008-2012, og hefur því verið þjálfari liðsins á mörgum af stærstu stundum handboltasögu Íslands eins og þegar Ísland vann silfur á Ólympíuleikunum í Peking 2008 og brons á EM í Austurríki 2010.

Guðmundur hefur einnig þjálfað landslið Barein og Danmerkur, sem hann gerði að Ólympíumeistara í Ríó árið 2016, auk þess að þjálfa félagslið í Þýskalandi, Danmörku og á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×