Sport

Haf­þór Júlíus eftir sigurinn gegn Eddi­e Hall: „Tæknin vann í kvöld“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hafþór Júlíus hafði betur gegn Eddie Hall.
Hafþór Júlíus hafði betur gegn Eddie Hall. Talksport

Hafþór Júlíus Björnsson vann Eddie Hall í því sem hefur verið kallað þyngsti boxbardagi sögunnar. Bardagi þeirra félaga endaði á dómaraborðinu en þar dæmdu allir Hafþóri í vil. Hann hrósaði Hall eftir bardagann og sagði jafnframt að sér liði eins og tæknin hefði unnið.

Bæði Hafþór Júlíus og Eddie Hall eru fyrrum sterkustu menn í heimi. Langt er síðan þeir ákváðu að mætast í boxhringnum en vegna kórónuveirunnar var bardaganum ítrekað frestað. Hann fór loks fram í Dúbaí í gær, bardaginn var sex lotur og að honum loknum stóð Hafþór Júlíus uppi sem sigurvegari.

Eftir mikil læti fyrir bardaga var sigurvegarinn frekar auðmjúkur í viðtali að honum loknum.

„Ég vil þakka Eddia Hall og hans teymi fyrir að setja upp þessa frábæru sýningu, hann lét mig vinna fyrir hlutunum. Ég hef aldrei verið felldur á æfingum svo ég tek hatt minn ofan fyrir honum. Hann getur látið höggin dynja, hann var ekki að ljúga. En í dag líður mér eins og tæknin hafi unnið.“

Thor – eins og hann er kallaður á vef TalkSport – segir að mögulega muni þeir mætast aftur þar sem Hall tapaði bardaganum.

„Hann virkaði enn smá reiður, eðlilega þar sem hann tapaði bardaganum. Ég er samt mjög ánægður og ef hann vill keppa aftur þá er það ekkert mál. Viljið þið sjá okkur keppa á nýjan leik?“ spurði Hafþór Júlíus að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×