Erlent

Bandaríkjamenn gagnrýna „hættulegt“ tal Rússa um notkun kjarnorkuvopna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Leon Panetta, fyrrverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, og Dmitry Peskov, talsmaður stjórnvalda í Moskvu.
Leon Panetta, fyrrverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, og Dmitry Peskov, talsmaður stjórnvalda í Moskvu. epa

John Kirby, talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins, fordæmdi ummæli talsmanns stjórnvalda í Moskvu á CNN í gær, þar sem hann sagði að kjarnorkuvopnum yrði mögulega beitt ef „tilvistaleg ógn“ steðjaði að Rússum.

Kirby sagði ummælin „hættuleg“ og ekki til marks um það hvernig ábyrgt kjarnorkuveldi ætti að hegða sér. Hann bætti hins vegar við að Bandaríkjamenn fylgdust vel með og hefðu ekki orðið varir við neitt sem kallaði á breyttan viðbúnað.

Leon Panetta, fyrrverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, gagnrýndi einnig ummæli Dmitry Peskov. „Ég sé ekki að það sé hægt að álíta það öðruvísi en hættulegt þegar Rússland er að leita að mögulegum afsökunum til að nota minni kjarnaorkuvopn,“ sagði hann.

Sagði hann Rússlandi augljóslega ekki ógnað og það væri áhyggjuefni ef þarlend stjórnvöld væru raunverulega að velta möguleikanum fyrir sér. 

„Ég veit ekki hvort þetta verður. Ég held að Pútín verði að huga að því hvernig Bandaríkin myndu bregðast við og hann verður að hafa eigið líf í huga.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×