Erlent

Segja Stol­ten­berg verða ár lengur í em­bætti

Atli Ísleifsson skrifar
Jens Stoltenberg tók við embætti framkvæmdastjóra NATO árið 2014.
Jens Stoltenberg tók við embætti framkvæmdastjóra NATO árið 2014. AP

Jens Stoltenberg mun framlengja tíð sína sem framkvæmdastjóri NATO um eitt ár en til stóð að hann myndi láta af embætti næsta haust. Ástæðan er ástandið vegna innrásar Rússa í Úkraínu sem hófst fyrir sléttum mánuði.

Norsku fjölmiðlarnir TV 2 og Dagens Næringsliv segjastbáðir hafa heimildir fyrir þessu í morgun.

Upphaflega stóð til að Stoltenberg myndi láta af störfum í lok september næstkomandi, en hann hefur þegar opnað á framhald með því að segja á fréttamannafundi í gær að það væri undir aðildarríkjunum þrjátíu komið hvort að hann myndi halda áfram.

Greint var frá því fyrr á árinu að Stoltenberg hafi verið skipaður seðlabankastjóri í Noregi og að hann myndi taka við stöðunni þegar embættistíð hans hjá NATO lyki.

Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, hefur sömuleiðis opnað á að Stoltenberg haldi áfram hjá NATO. Noregur styðji slíkt sé það vilji aðildarríkjanna.

Leiðtogar aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins munu funda í Brussel í dag. Á meðal umræðuefna verður aðkoma Nató að átökunum í Úkraínu og viðskiptaþvinganir.

Stoltenberg tók við stöðu framkvæmdastjóra NATO árið 2014, en hann gegndi embætti forsætisráðherra Noregs á árunum 2000 til 2001 og svo aftur frá 2005 til 2013.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×