ÍR og Njarðvík mættust í Seljaskóla í kvöld í hröðum og spennandi leik. Fyrir leikinn voru ÍR-ingar komnir upp við vegg en ef þeir ætluðu sér í úrslitakeppnina urðu þeir að hafa sigur í kvöld, annars væru draumar þeirra um sæti í úrslitakeppninni úr sögunni.
Það voru innan við 48 tímar frá síðustu leikjum liðanna og því áhugavert að sjá hvert orkustigið yrði hér í kvöld. Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur, talaði um það fyrir leik að ÍR-ingar væru farnir að spila hratt og hans menn þyrftu að mæta því orkustigi sem ÍR-ingar væru þekktir fyrir að bjóða uppá hér á heimavelli.
Framan af leik var ekki að sjá að hér væru að mætast liðið sem rétt slapp við fall og liðið sem er að berjast upp toppsætið í deildinni. Heimamenn voru augljóslega mættir til að leggja allt í sölurnar, og þá var eins og gestirnir væru bara hreinlega ekki mættir til leiks á köflum. Mestur varð munurinn 14 stig um miðjan 2. leikhluta en 7 stig í röð frá aldursforsetanum Loga Gunnarssyni héldu gestunum inni í leiknum, sem og flautukarfa frá Dedrick Basilem, sem þýddi að munurinn í hálfleik var sá sami og að loknum 1. leikhluta, staðan 50-42 í hálfleik og vonir ÍR-inga um síðasta sætið í úrslitakeppninni enn sprelllifandi.
Eitthvað hefur Benedikt lesið yfir sínum mönnum í hálfleik því það mætti allt annað og sprækara lið Njarðvíkur til leiks í seinni hálfleik. 11 stig í röð komu þeim þremur stigum yfir en það verður þó ekki tekið af ÍR-ingum að þeir gáfust aldrei upp og komu nokkrum sinnum til baka. Raunar svo hressilega til baka að leikurinn fór í framlengingu þar sem Igor Maric jafnaði leikinn 91-91 með ótrúlegum flautuþristi úr horninu í þröngu færi.
Njarðvíkingar tóku nokkuð afgerandi forystu í framlengingunni, 93-102, en ÍR-ingar voru hvergi nærri hættir og jöfnuðu leikinn 103-103, þar sem Collin Pryor sallaði inn stigum. Þá greip Nicolas Richotti til sinna ráða, skoraði 6 síðustu stig Njarðvíkur í leiknum og tryggði gestunum sigur, lokatölur 105-109.
Af hverju vann Njarðvík?
Reynslan fleytti Njarðvíkum langt í kvöld. Nicolas Richotti steig upp í seinni hálfleik og endaði stigahæstur gestanna með 27 stig. Annars voru Njarðvíkingar í raun stálheppnir að landa þessum sigri þar sem ÍR-ingar komu alltaf til baka og þeir fara eflaust sársvekktir á koddann í kvöld.
Hverjir stóðu uppúr?
Jordan Semple fór hamförum hjá heimamönnum, skoraði 31 stig, reif niður 18 fráköst og endaði með 44 framlagspunkta. En hann fékk líka á sig 5 villur og gat því ekki klárað leikinn þegar liðið þurfti mest á honum að halda. Igor Maric hitti afar vel fyrir utan þriggja í kvöld, ekki síst þegar á reyndi, en hann setti 6 þrista í 11 tilraunum, endaði með 23 stig, 7 fráköst og 7 stoðsendingar.
Hjá Njarðvík fór Nicolas Richotti mikinn í seinni hálfleik, skoraði 27 stig alls og bætti við 7 stoðsendingum. Þá var Dedrick Deon Basile einnig drjúgur fyrir gestina, skilaði 24 stigum, 6 fráköstum og 8 stoðsendingum og brenndi hann varnarmenn ÍR-inga oft með hraða sínum.
Hvað gekk illa?
ÍR-ingum gekk afleitlega að verja forskotið sem þeir byggðu upp í fyrri hálfleik. Sumum leikmönnum þeirra gekk líka illa að halda sér inni á vellinum, en bæði Jordan Semple og Breki Gylfason fengu 5 villur í kvöld.
Hvað gerist næst?
ÍR-ingar geta tekið lífinu með ró og haldið vestur á Ísafjörð á fimmtudaginn áhyggjulausir um framhaldið, úrslitakeppnin úr augnsýn en það er falldraugurinn líka. Njarðvíkingar sitja í toppsætinu eftir þennan leik og sigur gegn Keflavík í lokaumferðinni gæti tryggt þeim deildarmeistaratitilinn, en það fer þó allt eftir því hvernig úrslit leikja hjá Þór frá Þorlákshöfn verða.
Allt annað að sjá þetta í seinni hálfleik
Það var engu líkara en allt annað Njarðvíkur lið mætti til leiks í seinni hálfleik eftir fremur dapurlega frammistöðu á köflum í þeim fyrri. Hálfleiksræðan hjá Benedikt Guðmundssyni, þjálfara Njarðvíkur, virðist hafa virkað en hann vildi þó ekki meina að hann hefði tekið hárþurrkuna á sína menn inni í klefa, heldur einfaldlega farið yfir það sem var að klikka og hvað þyrfti að bæta
„Við bara fórum aðeins yfir þessa „basic“ hluti. Ég talaði um að það væru svona 25% sem við þyrftum að bæta við allt sem við vorum að gera. Við vorum seinir í öllu, menn bara virkuðu stirðir og ekki alveg eins og við viljum vera. En það var allt annað að sjá þetta í seinni hálfleik.“
Benedikt talaði um það fyrir leik að Njarðvík þyrfti að mæta því orkustigi sem ÍR-ingar væru að spila á. Eftir því sem leið á leikinn virtust Njarðvíkingar ná að bæta í og spila af sama hraða og krafti og heimamenn.
„Já við náðum því þegar leið á. En þetta var erfitt í fyrri hálfleik, mjög svo, sérstaklega í 1. leikhluta, en svo varð þetta betra og betra eftir því sem leið á leikinn, þriðji leikhluti frábær. Vissulega ósáttur með að missa niður 10 stiga forystu þegar það var lítið eftir, og við erum svo komnir aftur 9 yfir í framlengingunni og missum þetta aftur niður. Þá var ég ekki sáttur en get ekki annað en hrósað strákunum, búin að vera erfið vika og við klárum hana svona. Bara stórt hrós á þá.“
Vel klárað vissulega hjá Njarðvík í kvöld eftir rysjótta kafla, var þetta mögulega bara fín æfing fyrir úrslitakeppnina sem er rétt handan við hornið?
„Jú þetta er bara það sem koma skal. Svona eru leikirnir á þessum árstíma. Það er að koma apríl og fólk veit hvað er að fara að gerast þá. Þá er bara stál í stál í Subway deildinni og við erum að reyna að vera á góðum stað á þessum árstíma.“
Fínt að fá einn framlengdan leik svona fyrir úrslitakeppni
Hinn rúmlega fertugi Logi Gunnarsson var nokkuð brattur eftir leik, þrátt fyrir að hafa leikið 28 mínútur í framlengdum leik. Hann sagði að það hefði í raun bara verið fínt að fá loksins einn framlengdan leik, til að setja tóninn fyrir úrslitakeppnina og kvartaði ekkert þó svo að hann hefði þurft að spila mikið svona stuttu eftir síðasta leik.
„Jú kannski var bara fínt að fá einn framlengdan leik svona fyrir úrslitakeppni. Ég held að þetta sé fyrsti framlengdi í vetur hjá okkur. Það var full mikil værukærð yfir þessu hjá okkur í kvöld, bæði í endann á venjulegum leiktíma og í framlengingunni en við náðum að hitta stórum skotum í framlengingunni og klára. Þeir náttúrulega gáfust ekkert upp og við vissum það, enda eru þeir með hörku lið.“
Logi vildi meina að það hefði verið liðsheildin sem skóp sigur Njarðvíkur í kvöld.
„Það er bara svona ákveðin liðsheild sem var að skapa þennan sigur. Okkur vantar tvo byrjunarliðsmenn í Veigari og Hauki. Þá þurfa bara ákveðnir leikmenn að stíga upp, þar á meðal ég. Þá þarf maður bara að hjálpa liðinu aðeins meira og það kemur kannski hópnum aðeins saman, þegar það vantar leikmenn í hann.“
Bakverðirnir Dedrick Dion Basile og Nicholas Richotti fóru fyrir liði Njarðvíkur í kvöld. Logi tók undir að þeir hefðu verið liðinu mikilvægir þegar á reyndi.
„Þeir eru með ákveðin gæði sem maður sér ekkert oft. Hraðinn hjá Dedrick og Richotti er náttúrulega rosalega reynslumikill og kann að vinna stóra leiki og sýndi það hér í kvöld þar sem hann klárar með 4 stigum í einni sókn. Þeir voru flottir í kvöld.“