Íslenski boltinn

Arnar: Kemur alltaf að þessu

Árni Konráð Árnason skrifar
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings. Vísir/Vilhelm

FH vann dramatískan 2-1 sigur á Íslands- og bikarmeisturum Víkings í úrslitum Lengjubikars karla í knattspyrnu í kvöld. Sigurmarkið kom úr síðustu spyrnu leiksins en Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, segir svekkjandi að hafa tapað leiknum.

„Það kemur alltaf að þessu“ sagði Arnar þegar hann var spurður út í fyrsta silfur Víkings undir hans stjórn. Arnar hélt áfram: 

„Mér fannst fyrri hálfleikur mjög sterkur hjá okkur, við hefðum átt að fara með fleiri mörk í seinni hálfleikinn. Í seinni hálfleik að þá bætti í vindinn og þetta var erfiður leikur, erfiður leikur fyrir bæði lið.“

Víkingar voru með tök á leiknum í fyrri hálfleik, þó að FH hafi vissulega fengið sín færi. FH-ingar mættu þó grimmir til leiks í þeim síðari. 

„FH-ingar komu með mjög gott leikplan í seinni hálfleik, lágu til baka og voru að vonast eftir skyndisóknum, þeir nýttu tvö færi mjög vel“ sagði Arnar.

„Það er svekkjandi að tapa úrslitaleik, það er svekkjandi að missa takið og þessa áru yfir að vinna úrslitaleiki. Það þarf ekki meira til í fótbolta til þess að gefa hinum liðunum smá von og þá halda hin liðin að þau eigi einhvern sjéns,“ bætti Arnar við. 

Honum fannst sitt lið þó vera með tök á leiknum í fyrri hálfleik en fannst leikurinn hafa farið út í bull í seinni hálfleik og vísar þar í að mikill vindur var á vellinum og leiðinlegar aðstæður.

Arnar fer inn á að þeir eru með nýtt miðvarapar, en þeir Sölvi Geir Ottesen og Kári Árnason munu ekki halda áfram inn á vellinum. 

„Þetta er mjög ólíkt okkur, við þurfum að synca okkur saman og þetta er það sem gerist þegar að þú ert með nýja varnarmenn“ sagði Arnar að endingu en hann telur að Víkingar hefðu átt að geta komið í veg fyrir bæði mörkin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×