Viðskipti innlent

Freyja flytur í Hveragerði

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Ævar var á opnum fundi Sjálfstæðisfélags Hveragerðis á dögunum þar sem hann kynnti flutning Freyju í Hveragerði.
Ævar var á opnum fundi Sjálfstæðisfélags Hveragerðis á dögunum þar sem hann kynnti flutning Freyju í Hveragerði. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Öll starfsemi Sælgætisgerðarinnar Freyju verður flutt úr Kópavogi til Hveragerðis en fyrirtækið hefur fengið úthlutað um sautján þúsund fermetra lóð í bæjarfélaginu. Fimmtíu ný störf verð til í Hveragerði með flutningnum.

Ævar Guðmundsson eigandi og forstjóri Freyju var gestur nýlega á fundi hjá Sjálfstæðisfélaginu í Hveragerði þar sem hann sagði frá flutningi fyrirtækisins í Hveragerði, auk þess að kynna starfsemi Freyju og svara spurningum fundarmanna. Freyja er elsta starfandi sælgætisgerð á Íslandi, stofnuð árið 1918.

En hvað varð til þess að Hveragerði varð fyrir valinu?

„Við teljum þetta vera miðjuna á stóru atvinnusvæði og það er alltaf erfiðara að ná í fólk til að vinna, þannig að ég held að þetta sé bara góð staðsetning. Það er líka gríðarlegt magn af bílum, sem fer hérna fram hjá, sem hefur líka að segja markaðslega séð,“ segir Ævar.

Lóð fyrirtækisins verður um 17 þúsund fermetrar en verksmiðjuhúsnæðið sjálft verður um 6 þúsund fermetrar.

Fjölmörg störf flytjast í Hveragerði með flutningnum.

„Já, bæði þeir sem vilja koma og fyrir fólk hérna á svæðinu, sem vill koma og vinna, þá erum við bara spennt. Við gerum ráð fyrir að einhverjir vilji keyra úr bænum og jafnvel hérna af Suðurlandinu,“ bætir Ævar við.

Mikil ánægja er hjá Hvergerðingum með ákvörðun Freyju.

„Já, þetta er auðvitað mjög skemmtilegt og það er afskaplega gaman þegar jafn stór fyrirtæki eins og Freyja sjá hag sínum vel borgið í sveitarfélagi eins og okkar. Við bjóðum hér mjög góðar aðstæður. Við erum hérna í túnfæti höfuðborgarinnar, það er sár stutt inn á þann stóra markað sem er þar. Það er ekki nema 15 til 20 mínútur að keyra niður í útflutningshöfnina í Þorlákshöfn og svo er þetta stóra Árborgarsvæði að byggjast svo hratt upp að við munum sjá hér stórar breytingar á næstu árum og áratugum,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar.

Freyja er elsta starfandi sælgætisgerð á Íslandi, stofnuð árið 1918.Magnús Hlynur Hreiðarsson





Fleiri fréttir

Sjá meira


×