Fréttablaðið greinir frá þessu í morgun en í kvörtuninni segir að blóðtaka á fylfullum hryssum brjóti í bága við reglur evrópska efnahagssvæðisins um vernd dýra sem notuð eru í vísindaskyni.
Blóðmerahald og aðbúnaður blóðmera hefur mikið verið í umræðunni hér á landi eftir að alþjóðlegu dýraverndunarsamtökin TSB Tierschutzbund Zürich og AWF Animal Welfare Foundation birtu heimildarmynd um blóðmerahald á Íslandi. Í henni mátti sjá slæma meðferð á hrossunum, þar sem þau eru lokuð inni í þröngri stíu og merarnar meðal annars slegnar og barðar með prikum.
Í kvörtun dýraverndunarsamtakanna til ESA segir að Ísland beiti ekki sem skyldi löggjöf sinni sem byggi á tilskipun Evrópusambandsins.
Evrópska reglugerðin sem um ræðir kveður á um að tilraun skuli ekki gerð á dýrum ef viðurkennd er önnur aðgerð, sem feli ekki í sér notkun á lifandi dýri og nái fram þeim niðurstöðum sem leitast er eftir. Er bent á að þegar hafi verið þróað hormónalyf sem hafi sömu áhrif og hormón úr blóði fylfullra hryssa.