Innlent

Óvæntar veðuraðstæður í Reykjavík í dag áttu sér skýringu

Snorri Másson skrifar
Austurvöllur 31. mars 2022.
Austurvöllur 31. mars 2022. Vísir/Egill

Veðrið lék við landsmenn á suður- og vesturhorni landsins í dag á þessum síðasta degi marsmánaðar.

Suður- og vesturhlutar landsins lentu í rifu á milli tveggja veðrakerfa í dag — það hlaut eitthvað að vera; í fyrsta sinn um nokkra hríð var veður á höfuðborgarsvæðinu ekki fjandsamlegt öllu mannlífi.

Bongóblíða, sögðu sumir viðmælendur fréttastofu í stuttri athugun í miðbæ Reykjavíkur í dag. Þar dró ýmislegt annað til tíðinda; þýskunemar lærðu úti í sólinni, Þjóðverjar skáluðu fyrir sólinni og mæður keyptu fyrstu sólgleraugun á nýfædd börn. 

Það vorar — um það er ekki deilt. En bongóhugtakið er hins vegar faglegur mælikvarði. Á Twitter-síðunni „Er bongó?“ sem hefur úrskurðarvald um þetta efni hefur ekkert tíst birst um að í dag hafi verið bongóblíða. Kannski það þurfi minnst tveggja stafa tölu til þess — í dag voru gráðurnar mest sjö. 

Á morgun þykknar aftur upp á Suður- og Vesturlandi en rofar á móti til norðan- og austanlands. Svo verður víðast hvar þungbúið dagana á eftir — skammgóðir vermir sem sagt þetta ástand í dag.

Síðasta tíst umrædds aðgangs: 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×