Í fréttum Stöðvar 2 var sýnt frá athöfninni í höfuðstöðvum Hafró í Hafnarfirði þegar ráðherrarnir Bjarni Benediktsson og Svandís Svavarsdóttir, ásamt Þorsteini Sigurðssyni, forstjóra Hafrannsóknastofnunar, skrifuðu undir samninginn við skipasmíðastöðina Astilleros Armón í Vigo á Spáni. Spænska stöðin átti lægsta tilboð í smíði skipsins, um 33,5 milljónir evra, og var gengið að því.

Alþingi samþykkti þingsályktun um smíði skipsins á hátíðarfundi á Lögbergi á Þingvöllum sumarið 2018 í tilefni eitthundrað ára fullveldisafmælisins. Tillagan gerði ráð fyrir að skipið yrði smíðað á árunum 2020 og 2021.
„Öflugar hafrannsóknir og vöktun á umhverfi sjávar eru forsenda sjálfbærrar nýtingar sjávarauðlindanna sem auka þekkingu á umhverfinu og þeim breytingum sem þar eru að verða,“ sagði í greinargerð tillögunnar sem formenn allra stjórnmálaflokka á Alþingi stóðu að með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra sem fyrsta flutningsmann.

Nýja skipinu er ætlað að koma í stað rannsóknaskipsins Bjarna Sæmundssonar, sem smíðað var árið 1970 og verður þannig 52 ára gamalt í ár. Nýrra skip Hafrannsóknastofnunar, Árni Friðriksson, var smíðað árið 2000, og er því 22 ára gamalt.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: