Fótbolti

Lyngby byrjar umspilið á stórsigri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Freyr Alexandersson Sævar Atli Magnússon.
Freyr Alexandersson Sævar Atli Magnússon. Lyngby

Danska B-deildarliðið Lyngby byrjar umspilið um sæti í dönsku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð á stórsigri. Liðið vann einkar öruggan 5-0 sigur á Nykøbing í dag.

Hefðbundinni deildarkeppni í dönsku B-deildinni er nú lokið. Efstu sex lið deildarinnar fara í umspil þar sem spiluð er tvöföld umferð. Efstu tvö liðin að þeirri umferð lokinni fara upp í efstu deild.

Lærisveinar Freys Alexanderssonar gátu vart hafið umspilið betur en liðið vann þægilegan 5-0 sigur í dag. Það hefur hjálpað til að Jannich Storch, markvörður gestanna, fékk rautt spjald strax á 13. mínútu. Spjaldið fékk hann fyrir að brjóta á Sævari Atla Magnússon sem var sloppinn einn í gegn. 

Sævar Atli lá óvígur eftir í dágóða stund en náði sér á endanum og hélt leik áfram. Alls spilaði hann 64 mínútur.

Það tók heimamenn smá stund að brjóta varnarmúr gestanna niður en Nykøbing pakkaði í vörn eftir rauða spjaldið. Lyngby skoraði loks á 37. mínútu og aftur þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma í fyrri hálfleik. Staðan 2-0 í hálfleik.

Lyngby geðri svo út um leikinn með tveimur mörkum snemma í síðari hálfleik. Fimmta markið kom á 67. mínútu og þar við sat. Lokatölur 5-0 þó heimamenn hafi skorað mark sem var dæmt af skömmu eftir fimmta markið. 

Lyngby er í 2. sæti með 46 stig, þremur meira en Hvidovre IF sem situr í 3. sæti en fimm stigum minna en Helsingør sem trónir á toppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×