Innlent

Hvetja at­vinnu­rek­endur til að sleppa kröfu um vott­orð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sú var tíðin að fólk beið í röðum fyrir utan Heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu á Suðurlandsbraut.
Sú var tíðin að fólk beið í röðum fyrir utan Heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu á Suðurlandsbraut. Vísir/Vilhelm

Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu biður atvinnurekendur um að sleppa því að óska eftir vottorði frá starfsfólki sem hefur náð sér eftir Covid-19. Ástæðan er mikið álag á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Í tilkynningu frá heilsugæslunni segir að enn sé talsvert um Covid-19 smit í samfélaginu. Því sé áfram eitthvað um fjarvistir frá vinnu vegna faraldursins. 

„Minni áhersla er á PCR-próf en áður og hraðprófum hefur að mestu verið hætt. Því er algengt að fólk láti jákvæð heimapróf duga sem staðfestingu á veikindum og talsvert um að fólk sem hefur náð bata leiti á heilsugæslustöðvar til að staðfesta að veikindum sé lokið með beiðni um vottorð fyrir vinnuveitendur.“

Á tímum þegar mikið álag er á heilsugæsluna vegna inflúensu og annarra veikinda sé erfitt að réttlæta komur fullfrísks fólks á heilsugæslustöðvar í þessum tilgangi. 

„Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hvetur atvinnurekendur til að standa með starfsfólki heilsugæslunnar og sleppa því að kalla eftir læknisvottorðum og draga þannig úr álagi á heilsugæsluna.“

Þeir einstaklingar sem fara í einkennasýnatöku, sem hægt er að bóka í gegnum vefinn Heilsuvera, fá áfram sjálfvirk vottorð sem gilda í fimm daga. 

„Ef veikindi starfsfólks standa lengur en í þá fimm daga eru vinnuveitendur beðnir um að láta þessi vottorð duga til staðfestingar á veikindum þannig að fólk þurfi ekki að leita á heilsugæslustöðvar eftir öðru vottorði með tilheyrandi álagi fyrir heilbrigðisstarfsfólk.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×