Skoðun

At­vinnu­mál í að­draganda sveitar­stjórnar­kosninga

Ástþór Jón Ragnheiðarson skrifar

„Við viljum leggja okkar að mörkum til að laða að nýjan rekstur í sveitarfélagi“, „renna sterkari stoðum undir fjölbreyttan rekstur í sveitarfélaginu“, „fjölga nýsköpunarfyrirtækjum í sveitarfélaginu“. Ef þessi orð hljóma kunnulega, þá kemur það ekki á óvart. Allt eru þetta tilvitnanir í stefnuskrár hinna ýmsu flokka í hinum ýmsu sveitarfélögum varðandi atvinnumál í gegnum árin.

Óneitanlega er öflugt og fjölbreytt atvinnulíf ein af undirstöðum þess að samfélag geti verið blómlegt og dafnað og þar að leiðandi ekki furða að þeir sem sækjast eftir setu í sveitarstjórnum víðs vegar um landið vilji leggja áherslu á þann risastóra málaflokk sem atvinnumálin eru. En hvernig má ná markmiðum í atvinnumálum? Hvernig fáum við nýjan rekstur í sveitarfélagið? Sterkari stoðir? Nýsköpunarfyrirtæki?

Án efa koma upp í hugann hlutir eins og framboð atvinnulóða, hófleg fasteignagjöld o.s.frv, en það er eitt sem virðist oft gleymast í umræðunni um atvinnumál og það er hverjir standa á bakvið atvinnulífið. Á bak við blómlegt atvinnulíf stendur fólk. Á bak við allan þann fjölbreytta rekstur og nýsköpunarfyrirtæki er fólk eins og ég og þú. Fólkið sem er í rekstri er ekkert öðruvísi en aðrir. Fólk vill barnvænt samfélag, fólk vill trausta innviði, fólk vill öflugt íþróttalíf og fólk vill fjölskylduvænt samfélag. Að efla atvinnulífið felst í því að ráðast að rótunum. Það er röng nálgun stjórnmálamanna að horfa á það hvernig megi laða fyrirtæki í sveitarfélagið. Það er rétt nálgun að horfa á það hvernig megi laða fólk í sveitarfélagið.

Forsenda öflugs atvinnulífs er fjölskylduvænt samfélag þar sem fólk vill búa.

Höfundur er félagi í Sósíalistaflokki Íslands




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×