Innlent

Tveir hand­teknir vegna líkams­á­rásar í Kópa­vogi

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu þurfti að sinna ýmsum verkefnum í gærkvöldi og í nótt.
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu þurfti að sinna ýmsum verkefnum í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út vegna ýmissa mála í gærkvöldi og í nótt. Tilkynnt var um líkamsárás í hverfi 201 í Kópavogi þar sem tveir voru handteknir grunaðir um verknaðinn.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að mennirnir hafi verið vistaðir í fangageymslu vegna rannsóknar málsins. Sá sem fyrir árásinni varð var fluttur á slysadeild til skoðunar.

Lögregla þurfti einnig að sinna verkefni þar sem óskað var aðstoðar vegna manns í annarlegu ástandi sem svæfi ölvunarsvefni á veitingastað í hverfi 108 í Reykjavík. „Aðilanum ekið á svefnstað að hans ósk.“ Sömuleiðis var tilkynnt um annan mann í annarlegu ástandi í Skeifunni og var honum ekið heim til sín.

Þá var tilkynnt um slagsmál á veitingastað í miðbæ Reykjavíkur. Maður var handtekinn vegna málsins og fyrir að hafa ekki farið eftir fyrirmælum lögreglu. Sömuleiðis var tilkynnt um mann í annarlegu ástandi á bar í miðborg Reykjavíkur. Hafði sá skallað vegg, var verulega ölvaður, og hann fluttur á slysadeild til skoðunar.

Einnig var tilkynnt um bílveltu við Elliðavatnsveg þar sem þrír voru í bílnum. Slys á fólkinu voru hins vegar engin eða minniháttar að því er segir í skeyti lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×