Myndin er nánast þegar orðin hluti af nútíma stjórnmálasögu en eins og Vísir hefur farið ítarlega yfir gætu orð Sigurðar Inga, þess efnis að hann hafi ekki áhuga á að lyfta „þeirri svörtu“ haft margvíslegar pólitískar afleiðingar í för með sér.
Myndin sýnir þrjá starfsmenn Bændasamtakanna halda á Vigdísi en Sigurður Ingi reynir að forða sér. BÍ-menn eru þeir Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson fyrrverandi formaður BÍ og fyrrverandi varaþingmaður Framsóknar, Höskuldur Sæmundsson sérfræðingur á markaðssviði og Ásgeir Helgi Jóhannsson lögfræðingur samtakanna. Sigurður Ingi stendur milli Höskuldar og Ásgeirs en hefur ekki hug á að halda við Vigdísi.
Samkvæmt heimildum Vísis hefur myndin ferðast um milli áhugamanna um stjórnmál og höfð í mismiklum flimtingum. Einn þeirra, Þorvaldur Sverrisson heimspekingur og auglýsingamaður, hefur þegar birt myndina á sínum Facebook-vegg þar sem menn reyna að ráða í myndmálið.
Sigurður Ingi Jóhannsson ræddi við Magnús Hlyn Hreiðarsson fréttamann í kvöldfréttum Stöðvar 2. Magnús spurði Sigurð Inga hvort hann hefði verið ölvaður þetta kvöld.
„Það var mikill gleðskapur þetta kvöld, söngur og gleði og mikill hávaði. Það var verið að fá mig, eins og ég hef lýst í minni yfirlýsingu, í einhverja myndatöku sem mér fannst ekki vera viðeigandi á þessum tíma.“
Sigurður Ingi hefur ekki viljað upplýsa nákvæmlega hver ummælin eru, þau sem hann sér eftir. Samkvæmt heimildum fréttastofu voru þau á þá leið að spyrja hvort lyfta ætti þeirri svörtu.
„Ef það er einu sinni of mikið sagt, þá á ekki að endurtaka það,“ sagði Sigurður Ingi við Magnús Hlyn á Selfossi í kvöld þar sem ný skrifstofuaðstaða var opnuð í Landsbankahúsinu við Austurveg.
Nú er unnið að því að koma á sættum en svo virðist sem kólandi sé milli Framsóknarflokksins og Bændasamtakanna. Fréttastofa Ríkisútvarpsins greindi frá því að til standi að halda sáttafund á morgun. Þá munu þau Vigdís og Sigurður Ingi hittast á fundi. Með á fundinum verður einnig stjórn Bændasamtakanna.