Innlent

Karl Gauti kærir lög­reglu­stjóra fyrir að fella niður rann­sókn

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Karl Gauti Hjaltason segir að umfjöllun um mál sem þessi eigi að heyra undir dómstóla.
Karl Gauti Hjaltason segir að umfjöllun um mál sem þessi eigi að heyra undir dómstóla. Vísir/Vilhelm

Karl Gauti Hjaltason, fyrrverandi þingmaður sem féll út af þingi við endurtalninguna í Norðvesturkjördæmi síðasta haust, hefur kært lögreglustjórann á Vesturlandi til ríkissaksóknara fyrir að fella niður rannsókn á málinu.

Fréttablaðið greinir frá þessu í dag. Lögreglustjórinn sektaði á sínum tíma meðlimi yfirkjörstjórnar í kjördæminu fyrir brot á lögum eftir að ýmsir vankantar komu í ljós á starfsháttum kjörstjórnar. Kjörstjórnarfólkið neitaði hinsvegar að gangast við sektunum.

Á dögunum var síðan greint frá því að lögreglan hefði ákveðið að fella niður rannsóknina á störfum kjörstjórnar þar sem ekki teldist líklegt að rannsóknin myndi leiða til sakfellingar.

Þetta vill Karl Gauti ekki sætta sig við og segir í samtali við blaðið að umfjöllun um svo mikilvæg mál sem þessi eigi að heyra undir dómstóla.

Karl Gauti, sem er einnig fyrrverandi sýslumaður í Vestmannaeyjum, gagnrýnir einnig vinnubrögð lögreglunnar á Vesturlandi og segir hana aðeins hafa rannsakað hluta málsins, en í kæru sinni til lögreglu á sínum tíma hafi Karl Gauti bent á fjölmörg atriði sem hann taldi ábótavant hjá kjörstjórninni.


Tengdar fréttir

Mál yfir­kjör­stjórnar Norð­vestur­kjör­dæmis fellt niður

Lögreglustjórinn á Vesturlandi hefur fellt niður mál á hendur starfsmönnum yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis í kjölfar Alþingiskosninganna í september. Að minnsta kosti tveir starfsmenn yfirkjörstjórnar hafa fengið send bréf þess efnis. Þeirra á meðal Ingi Tryggvason, sem gegndi formannsstöðu, og Katrín Pálsdóttir sem sæti átti í yfirkjörstjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×