Fjármálaráðherra ákvað að fara að tillögu Bankasýslu ríkisins um svokallað tilboðsfyrirkomulag við sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka í síðasta útboði. Í kynningu Bankasýslunnar til ráðherrans kemur fram að helstu kostir sölu með tilboðsfyrirkomulagi séu þeir að það fyrirkomulag eigi að tryggja hæsta verð. Helstu gallar séu þeir að ekki er gert ráð fyrir beinni þátttöku almennra fjárfesta í slíkum útboðum.
Þátttaka lífeyrissjóða og verðbréfasjóða í slíku útboði muni þó alltaf tryggja aðkomu almennings með óbeinum hætti.
Buðu fyrir sjö milljarða en fengu minna
Samkvæmt upplýsingum frá lífeyrissjóðunum fengu þeir hins vegar aðeins að kaupa fyrir um 40 prósent af því sem þeir voru tilbúnir að fjárfesta í. Gerður Guðjónsdóttir er framkvæmdastjóri Brúar lífeyrissjóðs.
„Við buðum sex milljarða fyrir Brú lífeyrissjóð og einn milljarð fyrir Lífeyrissjóð starfsmanna Reykjavíkurborgar,“ segir Gerður.
Þau fengu svo að kaupa 40 prósent af því sem þau buðu segir Gerður.
Miðað við þær upplýsingar sem nú eru komnar fram, eruð þið sátt við þessar úthlutanir?
„Við buðum sjö milljarða þannig að auðvitað vildum við fá fyrir hærri fjárhæð en við fengum
Hvernig lítið þið á þessa fjárfestingu, er þetta til langs eða skamms tíma?
„Við erum náttúrulega lífeyrissjóður þannig að við erum alltaf að fjárfesta til langs tíma,“ segir Gerður.
Páll Magnússon fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins lýsir því í pistli á Facebook að kunningi sinn hafi fengið símtal þar sem honum bauðst að kaupa í útboðinu á Íslandsbanka með afslætti. Hann gæti grætt milljónir á kaupunum.
Kunningi hans hafi svo selt daginn eftir útboðið. Gerður gagnrýnir að þetta skuli mögulega hafa verið gert eftir síðasta útboð.
„Þetta er náttúrulega mjög óæskilegt, þegar verið er að selja eigur ríkisins, að þar sé hugsanlega einhvern misnotkun og verið að gera það fyrir gróða,“ segir Gerður.