Skoðun

Eflum samgöngur fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur

Steinn Jóhannsson skrifar

Á síðustu árum hefur orðið bylting í samgönguháttum í íslensku samfélagi. Þeim hefur fjölgað mikið sem kjósa umhverfisvænan fararmáta til og frá vinnu eða til að njóta útivistar, t.d. hjól, rafskutlur og rafhjól. Einnig hafði COVID þau áhrif að enn stærri hópur fór að njóta útivistar og notaði göngu- og hjólreiðastíga í meira mæli en áður.

Hvernig getum við stutt betur við þessa þróun á komandi árum?

Við í Samfylkingunni leggjum áherslu á að styðja við, bæta og efla umhverfisvænar samgöngur. Í stefnu okkar segir: „Uppbyggingu stofnleiða fyrir hjólreiðar verði flýtt eins og kostur er, sem og öðrum framkvæmdum í samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem eru mannaflafrek og skila miklum loftslagsávinningi.“ Í samræmi við stefnuna er mikilvægt á næstu árum að breikka stíga og greina meira á milli hjólandi og gangandi vegfarenda þar sem þessi hópur fer ört stækkandi. Jafnframt þarf Hafnarfjörður að huga betur að uppbyggingu stofnleiða og tengja við önnur sveitarfélög. Huga þarf sérstaklega að því að tengja þessar stofnleiðir við Borgarlínuna. Einnig þarf að skoða betri tengingu fyrir þennan hóp að útivistarperlum í nágrenni bæjarins. Nægir þar að nefna Helgafellið og er tilvalið að gera göngu- og hjólastíg að bílastæðunum skammt frá Helgafellinu. Einnig þarf að huga að stíg samhliða Krísuvíkurveginum í samvinnu við Vegagerðina en vegurinn er einn vinsælasti á meðal hjólreiðamanna og oft er þeim mikil hætta búin af þungaflutningum sem koma frá Vatnsskarðsnámunni. Til viðbótar má nefna að skynsamleg framkvæmd væri að byggja stíg meðfram allri strandlengjunni þar sem golfvöllur Keilis er staðsettur. Áðurnefndar breytingar myndu auka aðdráttarafl Hafnarfjarðar, stuðla að umhverfisvænni samgöngum og styðja vel við lýðheilsustefnu stjórnvalda og stuðla að aukinni útivist. Það er þörf á byltingu í almenningssamgöngum og Samfylkingin mun beita sér fyrir því á næsta kjörtímabili.

Höfundur skipar 21. sæti á lista Samfylkingarinnar í komandi sveitarstjórnarkosningum.




Skoðun

Sjá meira


×