Handbolti

Fullt hús þegar strákarnir okkar spila um HM-sæti

Sindri Sverrisson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar ættu að fá góðan stuðning þegar þeir freista þess að tryggja sér sæti á HM.
Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar ættu að fá góðan stuðning þegar þeir freista þess að tryggja sér sæti á HM. Getty

Uppselt er á heimaleik Íslands gegn Austurríki í umspilinu um sæti á næsta heimsmeistaramóti karla í handbolta. Mótið fer fram í Svíþjóð og Póllandi í janúar á næsta ári.

Fyrri leikur Íslands og Austurríkis er í Bregenz á miðvikudaginn klukkan 16 að íslenskum tíma en seinni leikurinn er á Ásvöllum í Hafnarfirði næsta laugardag, einnig klukkan 16.

Í gærkvöldi seldust síðustu miðarnir á heimaleik Íslands en um er að ræða fyrsta tækifæri Íslendinga í þrjú ár til að styðja strákana okkar á heimavelli.

Ísland leikur heimaleik sinn í íþróttahúsi Hauka á Ásvöllum en ekki er hægt að spila í Laugardalshöll þar sem að viðgerð vegna vatnstjóns, sem varð í nóvember 2020, er ekki lokið.

Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari ætti að geta teflt fram nánast sínu sterkasta liði í leikjunum tveimur en þó gat hornamaðurinn Sigvaldi Björn Guðjónsson ekki verið með vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×