Innlent

Telja að bensín­sprengja hafi verið notuð til að kveikja í hús­­næði vel­­ferðar­­sviðs

Eiður Þór Árnason skrifar
Starfsmenn velferðarsviðs þurfa aftur að venjast heimavinnu eftir endalok samkomubanns.
Starfsmenn velferðarsviðs þurfa aftur að venjast heimavinnu eftir endalok samkomubanns. Vísir/Vilhelm

Eldur kviknaði í húsakynnum velferðarsviðs Kópavogsbæjar í nótt og er sterkur grunur um íkveikju. Skrifstofa sviðsins var lokuð í dag vegna þessa og telur lögregla að bensínsprengja, eða svokallaður molotov-kokteill, hafi verið notaður til að kveikja eldinn.

RÚV greindi fyrst frá málinu en slökkviliði barst tilkynning um eldsvoðann fljótlega eftir miðnætti. Greiðlega gekk að slökkva eldinn en mikil vinna fór í að reykræsta skrifstofurnar, að sögn varðstjóra hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.

Þónokkrar skemmdir urðu á húsnæðinu og má búast við því að rúmlega fimmtíu starfsmenn sviðsins geti ekki snúið aftur þangað til starfa fyrr en í lok þessa mánaðar eða byrjun maí.

Mun starfsfólkið því stunda fjarvinnu á næstunni en viðgerðir eru þegar hafnar, að sögn Sigríðar Bjargar Tómasdóttur, upplýsingafulltrúa Kópavogsbæjar.

Koðnað fljótt niður

Ekki náðist í fulltrúa lögreglunnar í Kópavogi við vinnslu fréttarinnar en samkvæmt nýjustu upplýsingum Sigríðar hefur lögregla ekki enn haft hendur í hári gerandans. Hún staðfestir jafnframt að lögregla gruni að sá hafi notað svokallaðan molotov-kokteil.

Varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu segir að allt tiltækt lið hafi verið sent á staðinn þegar tilkynning barst um eldsvoðann í nótt. Þar hafi verið mikill eldur í upphafi en hann fljótlega koðnað niður. Nokkuð hafi verið um reyk- og brunaskemmdir og mest vinna farið í að slökkva glæður og reykræsta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×