Körfubolti

Næstum tveir ára­tugir síðan KR var síðast sópað í átta liða úr­slitum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
KR mátti síns lítils gegn Njarðvík.
KR mátti síns lítils gegn Njarðvík. Vísir/Bára Dröfn

Njarðvík sendi KR í sumarfrí er liðið vann þriðja leik liðanna í átta liða úrslitum Subway-deildar karla í körfubolta. KR-ingar eru ekki vanir að láta sópa sér úr úrslitakeppninni en þegar það kemur fyrir er það venjulega Njarðvík sem heldur á sópnum.

KR má muna sinn fífil fegurri en eftir að hafa orðið Íslandsmeistari sex sinnum í röð, frá 2014 til 2019 þá hefur liðinu nú verið sópað úr keppni tvö tímabil í röð (tímabilinu 2019-2020 var hætt vegna kórónufaraldursins).

KR-ingar skriðu inn í úrslitakeppnina í ár er liðið tryggði sér áttunda sæti Subway-deildar karla í lokaumferðinni þrátt fyrir tap. Liðið hafði unnið stórsigur á Njarðvík í deildinni ekki löngu áður en átti aldrei möguleika í úrslitakeppninni.

Deildarmeistarar Njarðvíkur unnu öruggan 3-0 sigur og sópuðu KR þar með í sumarfrí. Var þetta í fyrsta sinn síðan 2003 sem KR var sópað í 8-liða úrslitum en þá var Njarðvík einnig að verki. Raunar er það þannig að KR hefur alls verið sópað átta sinnum út úr úrslitakeppninni í körfubolta, þar af hafa Njarðvíkingar verið sex sinnum að verki.

KR sópað í úrslitakeppninni

3-0 tap fyrir Njarðvík í átta liða úrslitum 2022

3-0 tap fyrir Keflavík í undanúrslitum 2021

2-0 tap fyrir Njarðvík í átta liða úrslitum 2003

3-0 tap fyrir Njarðvík í undanúrslitum 2001

2-0 tap fyrir Grindavík í átta liða úrslitum 1999

3-0 tap fyrir Njarðvík í lokaúrslitum 1998

2-0 tap fyrir Njarðvík í átta liða úrslitum 1987

2-0 tap fyrir Njarðvík í átta liða úrslitum 1985

Njarðvík er komið í undanúrslit Subway-deildar karla líkt og Valur sem sópaði Stjörnunni. Enn á eftir að koma í ljós hver hin tvö liðin verða. Þór Þorlákshöfn er 2-1 yfir gegn Grindavík og Tindastóll er 2-1 yfir gegn Keflavík.


Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.


Tengdar fréttir

Logi Gunnars: Væri geggjað að fá Keflavík

Njarðvík er komið áfram í undanúrslit eftir að hafa sópað KR-ingum út úr úrslitakeppni Subway-deildar karla, 3-0. Njarðvíkingar unnu KR 91-63 í þriðja og síðasta leik einvígisins. Fyrirliðinn Logi Gunnarsson var ánægður með leik sinna manna í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×