„Það er miður þegar það er gripið til hópuppsagna á vinnustöðum enda erum við að tala hér um lífsafkomu og atvinnuöryggi launafólks og þegar slíkt gerist er grundvallaratriði að ætíð sé farið eftir öllum lögum og reglum og tryggt að kjarasamningsbundin réttindi séu virt í hvívetna,“ segir Vilhjálmur Birgisson í samtali við fréttastofu.
„Það er alltaf miður þegar fólk missir vinnuna og við erum að kljást við það í verkalýðshreyfingunni alla daga, oft í viku þar sem fólk er að missa vinnuna og það er ömurlegt þegar það gerist.“
Svo þú fordæmir þetta ekki?
„Eins og ég segi, ég lýsi þessu bara alfarið á stjórn Eflingar. Ég hef engar forsendur til að vega og meta hvað liggur hér að baki. Ég hef ekki séð nein gögn í því og því get ég ekki tjáð mig um það, þau verða að svara fyrir það á hvaða grunni þessar breytingar eru byggðar á.“
Beri mikið traust til Sólveigar Önnu
Vilhjálmur og Sólveig hafa lengi verið nánir bandamenn í verkalýðsbaráttunni og studdi hún dyggilega við nýlegt framboð hans til formannsembættis Starfsgreinasambandsins, sem Efling er hluti af.
„Það hefur verið gott samstarf á milli okkar Sólveigar Önnu um alllanga hríð. Við berum mikið traust til hvors annars. Ég veit að Sólveig Anna er mikil hugsjónamanneskja um að bæta kjör þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi. Þar erum við algerir samherjar og munum halda áfram því góða starfi sem við höfum verið að vinna að,“ segir Vilhjálmur.
Aðspurður um hvort Sólveig sé að skapa gott fordæmi í ljósi stöðu hennar sem leiðtogi verkalýðsfélags segir Vilhjálmur að uppsagnirnar séu alfarið á ábyrgð lýðræðislega kjörinnar stjórnar Eflingar.
„Ég bara trúi því og treysti að stjórn félagsins tryggi að öllum lögum og reglum verði fullnægt og þau tryggð með afgerandi hætti.“
Starfsfólk Eflingar hefur verið hvatt til þess að sækja aftur um stöður sínar þegar þær verða auglýstar og segist Vilhjálmur vona að sem flest þeirra fái starf sitt aftur kjósi það svo.