Innlent

Aftur til­kynnt um rangan sigur­vegara í Morfís

Smári Jökull Jónsson skrifar
Menntaskólinn í Reykjavík fékk ekki að fagna sigri að keppni lokinni í gær en var úrskurðaður sigurvegari síðar um kvöldið.
Menntaskólinn í Reykjavík fékk ekki að fagna sigri að keppni lokinni í gær en var úrskurðaður sigurvegari síðar um kvöldið. Vísir/Vilhelm

Verslunarskóli Íslands var ranglega úrskurðaður sigurvegari í viðureign skólans gegn Menntaskólanum í Reykjavík í MORFÍS í gærkvöldi. Þetta er í annað sinn á innan við ári sem samskonar mistök eiga sér stað í keppninni.

Mælsku- og rökræðukeppni framhaldsskóla á Íslandi, einnig þekkt sem MORFÍS, hefur verið fastur liði í félagslífi framhaldsskóla landsins um áraraðir og oftar en ekki vakið athygli almennings enda mikið líf og fjör oft í kringum keppnina.

Í gær mættust Menntaskólinn í Reykjavík og Verslunarskóli Íslands í undanúrslitum keppninnar en skólarnir hafa marga hildina háð í gegnum árin bæði í MORFÍS sem og spurningakeppninni Gettu betur.

Að lokinni keppni í gærkvöldi var Verslunarskólinn tilkynntur sigurvegari og hafði þar með tryggt sér sæti í úrslitaviðureign gegn Menntaskólanum á Akureyri.

Á Facebook síðu keppninnar er hins vegar greint frá mistökum sem áttu sér stað áður en úrslit voru tilkynnt. Innsláttarvilla í dómaraskjali varð til þess að stigin voru reiknuð rangt og Menntaskólinn í Reykjavík því sigurvegari og fer í úrslit.

Í færslunni segir að innsláttarvillan hafi falist í því að gleymst hafi að draga frá refsistig Verslunarskólans frá oddadómara og að eftir ítarlega skoðun sé MR því réttmætur sigurvegari.

Þetta er í annað sinn á innan við ári sem samskonar mistök eiga sér stað í MORFÍS. Í úrslitaviðureign keppninnar í fyrra var tilkynnt að Flensborgarskólinn hefði unnið sigur en skömmu síðar var svo tilkynnt að mistök hefðu átt sér stað og Verslunarskólinn væri sigurvegari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×