Íslenski boltinn

Fram fær varnar­mann sem hefur spilað í Dan­mörku og Fær­eyjum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Delphin Tshiembe í leik með AC Horsens.
Delphin Tshiembe í leik með AC Horsens. Bold.dk

Nýliðar Fram halda áfram að sækja leikmenn korter í að Íslandsmótið í fótbolta hefst. Í dag tilkynnti félagið að Delphin Tshiembe hefði samið og myndi spila með liðinu í Bestu deildinni í sumar.

Hinn þrítugi Tshiembe er fæddur í Kinshasa, höfuðborg Kongó, en er með tvöfaldan ríkisborgararétt þar sem hann fluttist snemma til Danmerkur og lék þar með yngri liðum FC Kaupmannahafnar.

Eftir að meistaraflokksferill hans hófst hefur Tshiembe flakkað töluvert milli liða. Hann hefur til að mynda spilað með BK Skjöld, Hellerup IK, HB Köge, AC Horsens og Vendsyssel FF í Danmörku. Þá lék hann eitt tímabil með Hamilton Academical í Skotlandi og með HB Tórshavn í Færeyjum frá febrúar 2020 til ársbyrjunar 2021.

Tshiembe er nú mættur til Íslands og getur samkvæmt tilkynningu Fram leikið bæði sem miðvörður eða varnartengiliður.

„Við bindum miklar vonir við Delph og viljum biðja alla Framara að bjóða hann hjartanlega velkominn í bláu treyjuna. Áfram FRAM,“ segir í tilkynningu Fram.

Vísir spáir Fram neðsta sæti Bestu deildarinnar. Delph er hins vegar annar leikmaðurinn sem félagið semur við síðan spáin kom út. Aðeins er vika síðan Fram samdi við ástralska miðvörðinn Hosine Bility.

Varnarlína liðsins gæti því verið töluvert frá því sem fram kemur fram í spánni þegar Fram hefur loks leik í Bestu deildinni á morgun, miðvikudaginn 20. apríl.

Fram tekur á móti KR í 1. umferð Bestu deildarinnar á morgun, miðvikudag, í Safamýri klukkan 19.15. Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 4.


Besta deildin er á Stöð 2 Sport en nýtt keppnistímabil hefst 18. apríl. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×