„Ég er mjög hrædd um að þessi hópuppsögn setji mjög slæmt fordæmi,” segir Anna Sigurlína Tómasdóttir, trúnaðarmaður starfsfólks Kjörís í Hveragerði fyrir hönd Eflingar. Hún hvetur alla félagsmenn til að mæta á fundinn, þegar og ef hann verður boðaður, og láta í sér heyra. Samkvæmt heimildum fréttastofu stendur til að leggja fram vantrauststillögu á Sólveigu Önnu Jónsdóttur sem formann.
Leggur til að hætt verði við uppsagnirnar
Anna Sigurlína ætlar sjálf að leggja fram tillögu um að uppsagnirnar verði dregnar til baka.
„Enda vinnst engin barátta, alveg sama hver hún er, með hnefann á lofti. Hún vinnst við samningaborðið,” segir hún og bætir við að hún voni innilega að uppsagnirnar verði dregnar til baka.
„Ég vona það mjög innilega. Ég held að þetta hafi mjög slæm áhrif á verkalýð Íslendinga. Þetta kemur ekki bara Eflingu við,” segir Anna Sigurlína. „Þetta kemur öllu verkafólki Íslands við.”
Í gær var afhentur undirskriftarlisti til stjórnarinnar með um 500 undirskriftum félagsmanna þar sem þess er krafist að blásið verði til félagsfundar á föstudag til að ræða hópuppsögnina.
Verkalýðsforkólfar fordæma
Agnieszka Ewa Ziólkowska, varaformaður Eflingar, sagði í morgun að Sólveig Anna væri búin að eyðileggja tveggja ára starf verkalýðsbaráttunnar með gjörðum sínum. Drífa Snædal, forseti ASÍ, fordæmir uppsagnirnar. Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, sagði í morgun að þær hafi verið mistök og að hann geti ekki stutt þær. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur sagt uppsagnirnar ömurlegar. Fréttastofa reyndi að fá viðtal við Sólveigu Önnu, en við því var ekki orðið. Sömuleiðis vildi Viðar Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri, ekki veita viðtal, og heldur ekki ritarinn Ólöf Helga Adolfsdóttir.