Handbolti

Þórir missir besta leikmann síðasta heimsmeistaramóts í barneignarfrí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kari Brattset Dale í leik með norska landsliðinu.
Kari Brattset Dale í leik með norska landsliðinu. Getty/Dean Mouhtaropoulos

Norska handboltakonan Kari Brattset Dale spilar ekki næstu mánuðina og missir því af titilvörn norska handboltalandsliðsins á Evrópumótinu í nóvember.

Brattset Dale er ófrísk og hefur einnig hætt að spila með ungverska félaginu Györ á þessari leiktíð.

Kari og eiginmaðurinn Kristian eiga vona á sínu fyrsta barni í nóvember næstkomandi. „Við erum mjög ánægð því við eigum von á einhverju mjög stóru,“ sagði Kari Brattset Dale við TV2 í Noregi.

Þetta er vissulega mikið áfall fyrir landsliðsþjálfarann Þóri Hergeirsson enda er Brattset Dale lykilmaður í liðinu og þá sérstaklega í varnarleiknum.

„Ég er mjög ánægður fyrir þeirra hönd. Það finna hins vegar öll lið fyrir því að missa einn besta línumann og varnarmann í heimi,“ sagði Þórir.

Kari er 31 árs gömul en hún ætlar að snúa til baka eftir barneignarfríið. Hún er með samning við ungverska félagið til 2024 og stefnir á að vera með á Ólympíuleikunum í París það sumar.

„Við verðum síðan bara að sjá til hvað gerist eftir 2024. Mér líður mjög vel í Ungverjalandi,“ sagði Brattset Dale.

Kari Brattset Dale hefur spikað 102 landsleiki og skorað í þeim 274 mörk. Hún var í risastóru hlutverki þegar norsku stelpurnar urðu Evrópumeistarar 2020 og heimsmeistarar 2021.

Hún var valin besti leikmaður heimsmeistaramótsins i desember síðastliðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×