Ingólfur krefst þess að fimm ummæli Sindra um sig verði dæmd dauð og ómerk. Þá krefst hann þriggja milljóna króna í miskabætur.
Ummælin beinast öll að meintum kynferðisbrotum Ingólfs en Sindri lét ummælin falla í kjölfar þess að aðgerðahópurinn Öfgar birti nafnlausar sögur meintra þolenda tónlistarmannsins.
Ummæli Sindra sem tekist er á um
„Maður sem er svo þekktur fyrir að ríða börnum…“
„Hvað finnst þér réttlætanlegt að fullorðinn maður nýti frægð sína og valdastöðu til að ríða mörgum börnum…“
„Skemmtikraftur sem hefur stundað það síðastliðin 12-13 ár að ríða börnum…“
„Trallað í skítbeisikk kassagítarútgáfu af manni sem ríður börnum…“
„Til að vinna örugglega unlikable keppnina þá splæsir eigandinn í barnaríðinginn.“
Ummælin voru flest birt á Twitter-síðu Sindra Þórs en einhver voru skrifuð í athugasemdakerfi Vísis og síðar endurbirt á Twitter.

Auður Björg Jónsdóttir, lögmaður Ingólfs sagði í greinargerð sinni að ummælin væru klárt brot á hegningarlögum enda væru þau ærumeiðandi. Í stefnu Ingólfs segir að ekkert bendi til þess að Ingólfur hafi framið refsiverð brot enda sé hann með hreinan sakaferil. Þá hafi ekkert barn eða foreldri barns sakað hann um brot gegn barni.

Aðalmeðferðin hófst klukkan tíu og er reiknað með að hún standi til klukkan 14 miðað við dagskrána á vefsíðu héraðsdóms.