Fótbolti

Svein­dís Jane hvíld er Wolfs­burg setti aðra hönd á titilinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sveindís Jane lék allan leikinn í fræknum sigri Wolfsburgar á Barcelona. Hún var hins vegar hvíld í dag.
Sveindís Jane lék allan leikinn í fræknum sigri Wolfsburgar á Barcelona. Hún var hins vegar hvíld í dag. Joan Valls/Getty Images

Sveindís Jane Jónsdóttir sat allan tímann á varamannabekk Wolfsburg er liðið vann öruggan 5-1 útisigur á Essen og er því aðeins einum sigri frá því að tryggja sér þýska meistaratitilinn.

Fyrir leik kvöldsins var Wolfsburg með eins stigs forystu á Íslendingalið Bayern München en sigur myndi þýða að Wolfsburg væri með fjögurra stiga forystu þegar tvær umferðir eru til loka tímabilsins.

Það var ekki að sjá að það væri mikið stress í liði Wolfsburgar en eftir rúmlega hálftíma var staðan orðin 3-0 gestunum í vil. Dominique Janssen, Ewa Pajor og Tabea Waßmuth með mörkin. Heimakonur minnkuðu muninn fyrir lok fyrri hálfleiks og staðan 1-3 er gengið var til búningsherbergja.

Janssen og Sandra Starke bættu við mörkum í síðari hálfleik og lokatölur því 5-1 Wolfsburg í vil. Sveindís Jane og stöllur eru því aðeins einum sigri frá því að tryggja sér þýska meistaratitilinn en liðið trónir á toppi deildarinnar með 53 stig á meðan Bayern er sæti neðar með 49 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×