Fótbolti

Ís­lendinga­lið Venezia svo gott sem fallið eftir enn eitt tapið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Stefnir allt í að Venezia leiki í Serie B á næstu leiktíð.
Stefnir allt í að Venezia leiki í Serie B á næstu leiktíð. EPA-EFE/ALESSIO MARINI

Venezia tapaði 2-1 fyrir Salernitana í sannkölluðum sex stiga leik í Serie A, ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta, í kvöld. Þó Feneyjaliðið eigi enn tölfræðilega möguleika á að halda sér uppi þá stefnir allt í að liðið spili í B-deildinni á næstu leiktíð.

Það byrjaði ekki byrlega hjá gestunum frá Feneyjum í kvöld en Federico Bonazzoli kom heimamönnum yfir með marki úr vítaspyrnu snemma leiks. Reyndist það eina mark fyrri hálfleiksins og jafnaði Thomas Henry metin þegar tæp klukkustund var liðin.

Simone Verdi tryggði hins vegar 2-1 sigur heimamanna og kom þeim þar með upp úr fallsæti. Þegar þrjár umferðir eru eftir geta enn sex lið fallið: Sampdoria og Spezia eru með 33 stig, fjórum stigum fyrir ofan fallsæti þegar níu stig eru eftir í pottinum.

Salernitana er í 17. sæti með 29 stig, einu meira en Cagliari sem er í fallsæti. Albert Guðmundsson og félagar í Genoa eru í 19. sæti með 25 stig og Venezia vermir botnsætið með aðeins 22 stig.

Arnór Sigurðsson var ekki í leikmannahóp Venezia í kvöld en hann hefur lítið sem ekkert leikið með liðinu síðan hann kom á láni frá CSKA Moskvu. Stefnir allt í að hann fari aftur til Moskvu í sumar en hvað gerist í kjölfarið á eftir að koma í ljós.

Þá eru þeir Bjarki Steinn Bjarkason og Óttar Magnús Karlsson samningsbundnir liðinu en báðir eru á láni. Bjarki Steinn hjá Catanzaro í Serie C og Óttar Magnús hjá Oakland Roots í Bandaríkjunum.


Serie A er hluti af Stöð 2 Sport Erlent sem kostar 3.990 kr. á mánuði. Upplýsingar um beinar útsendingar frá ítalska boltanum má finna hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×