Skoðun

Er flokkunum sem vinna gegn Reykja­vík treystandi til að stjórna Reykja­vík?

Jóhann Páll Jóhannsson skrifar

Reykja­víkur­borg er með lægsta skuldahlutfall sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og stendur betur fjárhagslega heldur en hin stóru sveitarfélögin á Íslandi. Það er nánast sama hvaða mælikvarði er notaður, alltaf kemur Reykjavík best út.

Þannig er staðan þrátt fyrir að borgin standi undir miklum meirihluta allrar fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga á Íslandi og Reykvíkingar verji miklu meiri fjármunum til félagsþjónustu almennt en aðrir íbúar höfuðborgarsvæðisins.

Reykjavík er líka með lægstu leikskólagjöldin af fimmtán stærstu sveitarfélögum landsins, greiðir einna hæstu fjárhagsaðstoðina til þeirra sem þurfa á henni að halda, ber hitann og þungann af þjónustu við heimilislaust fólk og er í fararbroddi þegar kemur að félagslegri húsnæðisuppbyggingu.

Þetta gerist ekki af sjálfu sér. Reykjavíkurborg stendur vel af því að Reykjavíkurborg er vel stjórnað.

Þær rekstrarlegu áskoranir sem borgin stendur frammi fyrir stafa að miklu leyti af skakkri tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga og tregðu löggjafans til að leiðrétta hana.

Þá líða Reykjavík og fleiri sveitarfélög fyrir óábyrga fjármála- og efnahagsstefnu sem hefur verið rekin í landsmálunum á vakt Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins síðastliðinn áratug. Í henni felst m.a. að skorið er niður bakdyramegin og verkefni á sviði velferðar- og menntamála færð yfir á sveitarstjórnarstigið án þess að fjármagn og tekjustofnar fylgi. Þetta kemur einna harðast niður á stærsta sveitarfélaginu sem er að miklu leyti með félagsþjónustu alls höfuðborgarsvæðisins á herðunum, Reykjavíkurborg.

Þegar stjórnmálaflokkarnir sem bera ábyrgð á einmitt þessu tromma fram í borginni með kosningaloforð um að bæði stórbæta þjónustu og lækka skatta strax; þegar flokkar sem standa fyrir niðurskurði í ríkisframlögum til félagslegrar húsnæðisuppbyggingar og grafa undan húsnæðisstuðningi með ójafnaðarstefnu kynna sjálfa sig sem lausn á húsnæðisvanda höfuðborgarsvæðisins; og þegar flokkur sem stendur vörð um fjárhagslega mismunun gagnvart grunnskólabörnum í Reykjavík segist ætla að setja börn í fyrsta sæti við stjórn Reykjavíkurborgar – þá sjá auðvitað kjósendur í gegnum loddaraskapinn.

Flokkar sem vinna gegn Reykjavík og hagsmunum Reykvíkinga eiga ekki að koma nálægt stjórn Reykjavíkur.

Það er ábyrgð okkar sem er annt um heilbrigða borgarþróun á félagslegum forsendum að fjölmenna á kjörstaði næsta laugardag og tryggja meirihlutanum í Reykjavík undir forystu Dags B. Eggertssonar og Samfylkingarinnar sterkt umboð til að gera góða borg ennþá betri.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×