Skoðun

DÓTTUR til for­ystu í Reykja­vík

Katrín Tanja Davíðsdóttir skrifar

Allir í crossfit heiminum kannast við hugtakið „dóttir”. Það stendur fyrir þann kraft og styrk sem felst í íslenskum konum og það hugrekki að trúa því að við getum gert allt það sem við ætlum okkur. Mér hefur alltaf þótt ég heppin með hversu margar íslenskar konur hafa rutt mína braut - og það hefur alltaf verið mitt hjartans mál að leggja mig alla fram við að gera slíkt hið sama fyrir komandi kynslóðir. Þá er ekki síður mikilvægt að styðja við aðrar konur á sömu braut!

Borgarstjórnarkosningar fara fram í Reykjavík á laugardaginn, og borgarstjóraefni Sjálfstæðismanna er sannkölluð „dóttir”. Ung og kraftmikil kona sem upplifað hefur tímana tvenna þrátt fyrir ungan aldur. Reynslumikil á atvinnumarkaði og í lífinu sjálfu. Barátta hennar og sigur á erfiðum veikindum hefur orðið mörgum innblástur og sýnt að þegar á hana reynir þá mætir hún orrustunni.

Hildur er, rétt eins og dæturnar í crossfit heiminum, mikilvæg fyrirmynd fyrir ungar og efnilega konur. Hún hefur á skömmum tíma orðið öflugur talsmaður borgarbúa og eftirtektarverð stjórnmálakona. Hildur er svo sannarlega tilbúin, og hvað gæti veitt meiri innblástur en að sjá unga og glæsilega konu fá það tækifæri sem hún gerir tilkall til.

Ég þekki sjálf mikilvægi öflugra fyrirmynda fyrir ungar konur. Saman sýnum við hver annarri hvað er hægt! Ef ein okkar getur eitthvað - afhverju ættum við hinar ekki að geta það líka?!

Stjórnmál snúast auðvitað um strauma og stefnur. Hildur Björnsdóttir er með sínar stefnur á hreinu og hjartað á réttum stað. Stjórnmál snúast þó ekki síður um að skapa fyrirmyndir og góð hughrif. Hildur er alvöru fyrirmynd. Manneskja sem háði erfiða baráttu, hafði sigur og sækir nú til æðstu metorða!

Valið í Reykjavík á laugardag er skýrt. Glæsilegan fulltrúa yngri kynslóðarinnar með hugrekki og drifkraft til staðar til þess að gera breytingar til hins betra! Eða áframhald á því sama.

Reykvíkingar geta með atkvæði sínu á laugardaginn tekið þátt í því að skapa glæsilega fyrirmynd fyrir unga fólkið í borginni. Styðjum Sjálfstæðisflokkinn og ryðjum brautina fyrir unga fólkið okkar.

Fáum DÓTTUR í borgina!

Höfundur er tvöfaldur heimsmeistari í crossfit.




Skoðun

Sjá meira


×