Svo skemmtilega vill til að þau Peggy og Sigurður kynntust einmitt í Norður-Karólínu þegar þau stunduðu þar nám við sama háskólann. Þá er Raleigh einnig heimabær Peggy.
Sigurður var forstjóri Flugleiða, síðar Icelandair, á árunum 1985 til 2005, og hafði áður verið í stjórnunarstöðum innan félagsins. Hann tengdist félaginu meira og minna í 43 ár og var síðast stjórnarformaður Icelandair Group til ársins 2017.
Peggy, sem er iðjuþjálfi að mennt, hefur einnig komið að málefnum Icelandair en hugmyndin að stofnun styrktarsjóðsins Vildarbarna Icelandair kom frá henni og hefur hún síðan verið helsti drifkrafturinn á bak við sjóðinn. Hjónin hafa bæði setið í stjórn hans en markmiðið er að gefa langveikum börnum, foreldrum þeirra og systkinum tækifæri til að fara í draumaferð. Árið 2017 var Peggy sæmd fálkaorðunni fyrir störf að málefnum veikra barna á Íslandi.
Icelandair mun fljúga fjórum sinnum í viku til Raleigh-Durham, á þriðjudögum, fimmtudögum, laugardögum og sunnudögum, frá 12. maí til 30. október.
„Þetta eru mjög ánægjuleg tíðindi og Raleigh-Durham er áfangastaður sem smellpassar inn í leiðakerfi okkar. Norður-Karólína er spennandi svæði fyrir Íslendinga að heimsækja auk þess sem flug okkar opnar mjög hentugar tengingar fyrir íbúa Norður-Karólínu, bæði til Íslands og áfram til fjölda áfangastaða í Evrópu,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair, í frétt frá félaginu.
„Eftir því sem áhrif heimsfaraldursins hafa dvínað höfum við byggt flugstarfsemina hratt upp. Á árinu höfum við hafið flug á ný til fjölda kunnuglegra borga en nú kynnum við til sögunnar nýjan áfangastað í fyrsta sinn síðan 2018,“ segir Bogi ennfremur.
Í tilkynningu félagsins segir að nágrannaborgirnar Raleigh og Durham hafi vaxið hratt undanfarin ár. Norður-Karólína hafi upp á margt að bjóða; spennandi söfn, fallegar gönguleiðir, glæsilega golfvelli og suðrænan sjarma.