Innlent

Spennan magnast hjá Sam­fylkingunni í biðinni löngu

Árni Sæberg skrifar
Heiða Björg skipar annað sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík.
Heiða Björg skipar annað sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík. Stöð 2

Heiða Björg Hilmisdóttir, sem skipar annað sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík, segir stemninguna á kosningavöku flokksins í Iðnó vera góða.

Fólk bíði spennt eftir fyrstu tölum í Reykjavík en umtalsverð töf hefur orðið á þeim. Nýjustu fregnir herma að tölur verði ekki lesnar upp fyrr en klukkan 01:30, eða einum og hálfum tíma á eftir áætlun.

„Ég væri nú að segja ósatt ef ég segði að við værum ekki pínulítið stressuð. En líka glöð,“ segir Heiða Björg í samtali við fréttastofu.

Aðspurð segir Heiða Björg að Samfylkingin geti vel hugsað sér að vinna með Framsóknarflokknum að kosningum loknum.

„Við erum vön því að eftir hverjar kosningar þá kemur nýr meirihluti. Við tökum bara kosningunum, þetta er þessi lýðræðislegi réttur fólks að kjósa. Við erum demókratar og berum virðingu fyrir því. Við getum í sjálfu sér unnið með öllum, en ef þessi meirihluti stendur, sem við vonum auðvitað, þá er það fyrsti kostur,“

Þá segir hún það blása Samfylkingarfólki í Reykjavík byr í brjóst að sjá góðan árangur Samfylkingar í öðrum sveitarfélögum

„Það var bara frábært, bæði í Hafnarfirði og Seltjarnarnesi. við erum að sjá gríðarlega góðar og sterkar tölur og við vonum að það viti á gott fyrir okkur,“ segir Heiða Björg að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×